137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

stýrivextir.

[10:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mikil var mæðan hjá hæstv. forsætisráðherra og allt mjög erfitt og þungbært o.s.frv. En, frú forseti, þetta er verkefni sem menn eiga að vinna að, menn eiga að klára þetta. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra að því hvort þessi stýrivaxtaákvörðun hefði eitthvað að segja þegar einungis 8 milljarðar eða 7,7 milljarðar nákvæmlega eru undir þessum stýrivöxtum en voru 140 um áramótin, 140 milljarðar niður í 8. Þessir stýrivextir eru hættir að bíta. Þetta er eitthvert leikrit sem verið er að leika. Mér finnst mjög ámælisvert að ríkisstjórnin skuli ekki skapa þær forsendur að peningastefnunefnd geti lækkað þessa sýndarstýrivexti sína og áttað sig á að það eru í rauninni innlánsvextir og millibankavextir sem stýra flæði gjaldeyris til og frá landinu. Það er fráleitt að halda stýrivöxtum uppi þegar enginn fær þá stýrivexti, sparifjáreigendur fá ekki þessa stýrivexti.