137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

stýrivextir.

[10:37]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg hægt að taka undir það með hv. þingmanni að það eru fyrst og fremst innlánsvextirnir og millibankavextirnir sem skipta máli nú um stundir. En hv. þingmaður verður að hafa í það huga að ríkisstjórnin ákveður ekki vextina, það er peningastefnunefnd. Ríkisstjórnin skapar einungis forsendur fyrir því að hægt sé að lækka vextina og það hefur verið verkefni hennar undanfarnar vikur og mánuði að skapa forsendur til þess í þeirri erfiðu stöðu sem við erum í, öll þjóðin. Það hefur ekki verið létt verk að fara í ýmis þau stóru viðfangsefni sem við núverandi ríkisstjórn blasa sem er ekki síst að kenna þeim viðskilnaði sem var hjá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum og hvernig þeir fóru í verkefnin. (Gripið fram í.) Við skulum muna eftir því að fyrst og fremst má rekja forsöguna til þessa alls til einkavæðingarinnar á bönkunum 2004 og hvernig að henni var staðið.