137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

Landsvirkjun.

[10:38]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Nú hafa Landsvirkjun og ríkið gert með sér viðbúnaðarsamning sem kveður á um það að hafi Landsvirkjun ekki nægilegt fjármagn til að mæta vaxtagreiðslum eða afborgunum lána muni Seðlabankinn afhenda fyrirtækinu erlendan gjaldeyri og Landsvirkjun afhenda bankanum krónur eða skuldabréf í staðinn. Landsvirkjun hefur verið metin til lánshæfis af erlendum matsfyrirtækjum síðan 1998 í því skyni að auðvelda fyrirtækinu aðgang að lánsfé en fyrirtækið hefur frá stofnun fjármagnað virkjunarframkvæmdir sínar að mestu leyti á erlendum markaði.

Matsfyrirtækin hafa frá upphafi gefið Landsvirkjun sömu lánshæfiseinkunn og íslenska ríkinu. Nú hefur matsfyrirtækið Standard & Poor´s breytt lánshæfismati sínu á Landsvirkjun úr BB-mínus í neikvæðar horfur í BB og er Landsvirkjun því komið niður í matið „Junk bonds“ eða rusl eins og það heitir á viðskiptamáli. Viðbúnaðarsamningurinn tryggir það að ef Landsvirkjun hefur ekki nægjanlegt fjármagn til að mæta vaxtagreiðslum eða afborgunum lána mun Seðlabankinn afhenda fyrirtækinu erlendan gjaldeyri og Landsvirkjun afhenda þá bankanum krónur eða skuldabréf í staðinn. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Ef allt fer á versta veg standa þá eignir Landsvirkjunar til fullnustu skulda hennar ef fyrirtækið getur ekki greitt af lánunum og ríkissjóður getur ekki hlaupið undir bagga, sérstaklega í ljósi þess að afborganir lána Landsvirkjunar árið 2011 og 2012 eru afar þungar og erfiðar? Er gert ráð fyrir skuldum Landsvirkjunar í reikningum ríkissjóðs til skuldahækkunar þar sem íslenska ríkið rekur Landsvirkjun tæknilega í dag og eru þessar skuldir uppgefnar í þeim reikningum sem nú liggja fyrir varðandi allar þær erlendu lántökur sem íslenska ríkið stendur nú að og fyrir?