137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

Landsvirkjun.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Framsóknarflokkurinn dregur aldrei neitt undan í ræðustól við að mála þá mynd sem við stöndum frammi fyrir eins dökka og svarta og erfiða og nokkur kostur er. Það er þeirra siður og hefð í ræðustól og það er út af fyrir sig ekkert skrýtið vegna þess að ef hv. þingmenn framsóknarmanna hafa haft fyrir því … (BirgJ: Er skrattinn kominn á vegginn?) Þeir hafa verið duglegir að veita ríkisstjórninni aðhald, það er gott og vel, en þeir eiga líka að hafa svolítið fyrir því að skoða forsögu málsins, skoða forsögu síns eigin flokks, hvernig flokkur þeirra stóð að því að koma á því ástandi sem við erum í. Við erum upp fyrir haus að moka þann framsóknarflór sem skilinn var eftir og það er mikið verk. (BirgJ: Nú er ekki tími fyrir skotgrafir.) Ég ætla að ráða því, hv. þingmaður, hvernig ég haga orðum mínum í ræðustól. Ég tel mig hafa svarað að fullu þeim spurningum sem til mín var beint varðandi Landsvirkjun. Staðan er erfið varðandi Landsvirkjun og það hefur verið gripið til aðgerða (Forseti hringir.) sem ég tel að muni duga í þessu efni. Komi annað í ljós er það breytt staða sem við þurfum að taka á.