137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ættleiðingar.

[10:55]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir skýr svör. Það gleður mig ef hún er að hugleiða að forsamþykki hafi lengri líftíma en nú er. Það mundi breyta miklu í þessari vegferð fyrir fjölda verðandi foreldra hér á landi. Ég held að í ljósi aðstæðna sé full ástæða til að gera það og full ástæða fyrir ríkisvaldið til að liðka til og sýna sveigjanleika og skilning á þeim aðstæðum sem uppi eru.

Svo má auðvitað ræða það í löngu máli hvað sé heppilegur barneignaraldur. Það er nefnilega þannig að karlar eru flestir á barneignaraldri þangað til þeir detta í gröfina (Gripið fram í: Nei.) en konur eru það ekki jafnlengi, þetta er reyndar misjafnt, frú forseti. Því held ég að skoða þurfi þá hluti í hinu stóra samhengi og heilsuhraustar íslenskar konur fara létt með það að annast um lítil börn þó að þær séu á fimmtugsaldri.