137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave.

[11:00]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög skýrt. Reyndar var þetta bara svar við annarri af tveimur spurningum sem ég bar upp. Mig langar til að endurtaka spurningu mína varðandi Icesave, hvort hæstv. ráðherra telji að það mál eigi að fara í þjóðaratkvæði og hvort hann muni greiða því atkvæði.

Mig langar líka að benda á að nú er komin upp deila og rimma innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, flokkurinn virðist vera klofinn. En Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, minnir óneitanlega á Göran Persson, þáverandi forsætisráðherra Svía, sem vildi ekki leggja stjórnarskrá Evrópusambandsins í þjóðaratkvæði einmitt á þeim forsendum að málið væri of flókið. En ég bíð eftir svari frá hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi Icesave-samningana, hvort við eigum ekki að leggja þá í þjóðaratkvæði.