137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alveg viss um að hæstv. ráðherrar, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, munu tala mikið um fortíðina í þessu máli. En það sem ég vil ræða hér er framtíðin og að þessir ráðherrar eru að skuldbinda íslenskan almenning um hundruð milljarða með kolómögulegum samningi. Ég býð ekki í það, frú forseti, eftir að hafa hlustað á hæstv. fjármálaráðherra sem sagði að ef alþingismenn mundu voga sér að fella þennan samning, þá væri samningsstaða Íslands engin og hæstv. ráðherra dró upp spádómskúlu sína og sagði að eftir nokkra mánuði mundu íslenskir ráðamenn fara á hnjánum til Breta og Hollendinga og biðja um að fá þennan samning aftur. Þvílíkt ábyrgðarleysi af hálfu ráðherrans í málflutningi hér. Hæstv. ráðherra er ekki að gæta hagsmuna íslensks almennings með því að eyðileggja samningsstöðu okkar héðan úr ræðustól Alþingis. Ég fordæmi þessi ummæli hæstv. ráðherra og ég vona að hann dragi þau til baka.