137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að ein áhættan í þessu máli er að sjálfsögðu sú sem allir kröfuhafar í gamla Landsbankann taka, forgangskröfuhafarnir auðvitað fyrst og fremst, það er spurningin um endurheimtu eigna og ríkið að sínum hlut tekur auðvitað þátt í þeirri áhættu. Það er alveg ljóst. Það liggur allt fyrir og hefur verið reynt að gera grein fyrir því með eins aðgengilegum hætti og kostur er og það er farið varfærið í mat í forsendum samninganna þar sem gert er ráð fyrir þó nokkuð lægra endurheimtuhlutfalli en t.d. skilanefnd Landsbankans sjálfs eða endurskoðunarstofnanir hafa metið.

Varðandi það að skilyrða með einhverjum hætti sérstaklega greiðslur okkar inn í þetta þá er öryggisákvæði samninganna hugsað nákvæmlega þannig að reynist greiðslubyrðin af þessu þyngri og staða Íslands til mikilla muna verri en áætlað var í nóvembermánuði sl. þá opnast upp endurskoðunarákvæði. Ég held að það sé eiginlega svarið við þeirri spurningu sem hv. þingmaður bar upp.