137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Er þetta sami hv. Bjarni Benediktsson og sat með mér í stjórnarmeirihluta í desembermánuði sl. og hafði m.a. forustu um það að tillaga frá hans eigin flokksmanni, Pétri H. Blöndal, um að samningurinn ætti að koma inn á Alþingi aftur til atkvæðagreiðslu, var felld og samninganefndinni og framkvæmdarvaldinu veitt það mikla umboð að ganga frá samningum um þær skuldbindingar sem hér um ræðir? Ég hlýt að spyrja hv. fyrrverandi formann utanríkismálanefndar Alþingis hvort hann finni ekki til ábyrgðar sinnar í því að hafa sett af stað þennan leiðangur með svo afgerandi hætti í eigin persónu og ætla svo hér þegar hinn vondi samningur — og auðvitað er það vondur samningur að þurfa að takast á við allar þessar fjárhæðir — kemur til kasta þingsins til að veita ábyrgð á að hlaupast þá frá þeim leiðangri sem hann sjálfur hefur sett af stað. Er það með þeim hætti (Forseti hringir.) sem Sjálfstæðisflokkurinn sér fyrir sér að pólitísk forusta í landinu eigi að haga sér?