137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:40]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg ótrúlegt að hlusta á málflutning stjórnarliðanna í þessu máli. Í stað þess að fordæma þá stöðu sem okkur er hótað að komi hér upp, í stað þess að fordæma það að lánsbeiðni okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sé tekin í gíslingu af stjórninni, í stað þess að fordæma það að Bretar láti í það skína að við verðum einangraðir í viðskiptalegu samhengi af fjármálamiðstöð heimsins, í stað þess að fordæma það að Hollendingar neita að taka þátt í afleiðingum þess að reglugerðarverk Evrópusambandsins hrundi koma menn hér upp og reyna að skella skuldinni af þessu öllu saman á Sjálfstæðisflokkinn og einkavæðingu bankanna. Þessi málflutningur hv. þingmanns er af sama meiði og hæstv. fjármálaráðherra sem sallarólegur stendur hér upp og segir: Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ber ábyrgð á þessu öllu saman og ég hef hreina samvisku er í góðu lagi að Alþingi samþykki samninginn.