137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:46]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseta. Ræða hv. þingmanns var eitthvert aumlegasta yfirklór sem ég hef heyrt af hálfu nokkurs íslensks flokksleiðtoga. Hv. þingmaður setti örugglega Íslandsmet í hröðum flótta frá sínum eigin orðum og sinni eigin ábyrgð í þessu máli. Það var hv. þingmaður sem færði sterkust rök í ræðu sem hann flutti 5. desember fyrir því af hverju ætti að fara samningaleiðina. Hv. þingmaður getur ekki komið hingað og sproksett hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa hlaupið frá sínum yfirlýsingum þegar það liggur fyrir að hv. þingmaður er að reyna að fela sína eigin slóð í málinu.

Það vill svo til að flokkur hv. þingmanns lagði fram samningastefnu. Hún var um miklu verri samning. Hún var um 10 ára lán, þriggja ára greiðslufrest, vexti upp á 6,7%. Það var hans fjármálaráðherra sem ritaði nafn sitt undir það, það var aldrei borið t.d. undir þáverandi sitjandi utanríkisráðherra enda setti starfsmaður utanríkisráðuneytisins ekki sína stafi undir þetta. (Forseti hringir.) Ég held (Gripið fram í.) að hv. þingmaður verði að horfast í augu (Forseti hringir.) við sína eigin ábyrgð í þessum málum. Það er lágmark.