137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:52]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson minntist á sinnaskipti fjármálaráðherra í ræðu sinni. Framsóknarflokkurinn hefur að einhverju leyti tekið svipaðan pól í hæðina og minnst á eldri þingræður frá fyrra þingi þar sem hæstv. fjármálaráðherra fer í gegnum skoðun sína á Icesave-málinu. Mér finnst þetta athyglisverð nálgun vegna þess að ég tel að sinnaskipti fjármálaráðherra séu einhver albestu rökin með því að þessi samningur sé sá illskásti sem við höfum. (Gripið fram í: Jesús minn.)

Ef einn harðasti andstæðingur samningsins á sínum tíma hefur núna algerlega skipt um skoðun og að einhverju leyti lagt sína pólitísku framtíð að veði við að verja og sýna ábyrgðartilfinningu þá eru það einhver albestu rökin með því að þetta sé illskásti samningurinn sem við höfum í hendi. (Gripið fram í: Ertu ekki að grínast?) Frammistaða hans í Iðnó, t.d. þegar hann stóð frammi fyrir fullum sal af reiðum andstæðingum samningsins og varði hann, sýndi svart á hvítu sinnaskipti ráðherrans, sýndi það að þetta er illskásti samningurinn sem við höfum og þess vegna skulum við sýna ábyrgðartilfinningu og ég höfða til Sjálfstæðisflokksins þar. Nú þurfum við að sýna ábyrgðartilfinningu. (Gripið fram í: Gakktu í Vinstri græna.)