137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var mjög alvarleg yfirlýsing frá hæstv. viðskiptaráðherra um að Íslendingar einir bæru ábyrgð á Icesave. Það voru nefnilega hollenska ríkisstjórnin og breska ríkisstjórnin sem ákváðu að bæta sparifjáreigendum upp það tap sem þeir höfðu orðið fyrir til að viðhalda trausti sparifjáreigenda í þessum löndum og um alla Evrópu og um allan heim á þeirri reglugerð sem Evrópusambandið hefur sett til að tryggja innstæður. Þær ríkisstjórnir tóku ákvörðun um að nota fé skattgreiðenda í stað þess að nota fé innlánsstofnana til að bæta upp eina tryggingatjónið sem upp hefur komið. Við Íslendingar getum ekki bara sisona sagt að þeir beri enga ábyrgð með því að taka þessa ákvörðun, að tryggja innstæðurnar. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort gert hafi verið 15 ára plan um hvernig þetta verður greitt, raunverulegt, með besta tilfelli, versta tilfelli o.s.frv. Það vantar alveg að gerð sé áhættugreining á eignum Landsbankans sem við erum að tryggja.