137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:18]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sjálfsagt verður hægt að deila mjög lengi um galla og kosti hinna ýmsu tilskipana Evrópusambandsins sem tengjast þessu máli. Ég rakti það reyndar í upphafi máls míns að hvað svo sem mönnum finnst um þær tilskipanir er alveg ljóst að Landsbankinn og eftirlit með honum var í höndum og á forræði Íslendinga þannig að ábyrgðin af því og mistökin sem voru framin þar hljóta alltaf á endanum að vera fyrst og fremst íslensk. Það er kannski sárgrætilegast í þessu að þessi banki lagði af stað, lekt skip, nánast komið að því að sökkva vorið 2008 með öllum leyfum frá Íslendingum til að sópa inn milljörðum evra á reikningum í Hollandi. Ef menn telja að Hollendingar beri ábyrgð á því er rétt að rifja upp þau mótmæli sem Hollendingar höfðu uppi vegna þess og hafa nú verið gerð opinber.