137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var ákvörðun breskra og hollenskra stjórnvalda að nota fé skattgreiðenda í þeim löndum til að tryggja það sem Evrópusambandið reiknaði með að innlánsstofnanir ættu að tryggja. Það eru innlánsstofnanir sem eiga að borga inn í þetta tryggingakerfi.

En mig langar til að skerpa á þeirri hugsun sem ég spurði áðan: Hvað telur ráðherrann miklar líkur á því að eignir Landsbankans dugi ekki fyrir 30% af innstæðunum? Hvað gerist þá og hvað eru miklar líkur á því að Ísland nánast verði gjaldþrota? Mér sýnist að hæstv. ráðherra gangi út frá meðaltali, nákvæmlega eins og FL Group gerði þegar það keypti í amerísku flugfélagi og sagðist hafa gert ítarlega rannsókn á því að áhættumatið stæðist. Það eru meðaltölin sem gilda í slíkum útreikningum en það sem við sem þingmenn þurfum að skoða eru einmitt frávikin þegar eitthvað gerist sem enginn reiknaði með, eins og t.d. það að þrír bankar færu á hausinn á Íslandi, eins og t.d. það að eitthvað gangi ekki eftir, eignin sé miklu minna virði en reiknað var með.