137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra komst akkúrat að kjarna málsins í síðasta andsvari er hann segir að það sé alveg óskapleg óvissa um alla hluti málsins, m.a. hvað fæst upp í eignir og annað, og ræða hans byggðist m.a. á mjög mörgum ef-um. Þetta er allt ef, ef, ef, þetta er spádómur um framtíðina og þetta var ekki góður hagfræðitími sem ég sat hér í undir ræðu hæstv. viðskiptaráðherra.

Að bera saman tekjur síðustu 15 ára og væntar tekjur næstu 15 ára er tóm blekking (Gripið fram í.) miðað við það sem gerðist á haustdögum 2008. (Gripið fram í: Ný Kárahnjúkavirkjun.) Ég vil einnig spyrja hæstv. viðskiptaráðherra, hann kom aðeins inn á að með því að samþykkja Icesave-samkomulagið væri virtur eignarréttur. Það er þveröfugt. Með því að samþykkja Icesave-samninginn er verið að hunsa eignarrétt þjóðarinnar, það er verið að hunsa eignarrétt á auðlindunum, það er verið að hunsa eignarrétt þess sem þjóðin á (Forseti hringir.) og síðast en ekki síst er búið að hunsa eignarrétt einstaklinga (Forseti hringir.) því að íbúðirnar eru upptækar nú þegar.