137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:23]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt, hv. þingmaður skildi það alveg rétt, að það er talsverð óvissa um marga þætti og ekki bara hversu mikið kemur út úr þrotabúi Landsbankans. Hitt get ég samt alveg fullyrt að það eru engar líkur á því að okkur takist ekki að ná slíkum tökum á okkar málum að eftir 15 ár verði staðan ekki orðin talsvert betri en hún er núna. Þess eru nánast engin dæmi úr veraldarsögunni að lýðræðisríki klúðri svo málum sínum að þau nái ekki slíkum árangri. (Gripið fram í.) Einu löndin sem ná ekki slíkum árangri eru Kúba, Argentína og önnur slík lönd (Gripið fram í.) sem missa allt niður um sig. Það munum við ekki gera og þá er hægt að lofa því að við verðum betur stödd eftir 15 ár en við erum núna. Við verðum raunar orðin betur stödd en við erum núna eftir mun skemmri tíma en 15 ár. (Gripið fram í.) Því þori ég að lofa.