137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:27]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er jafn vel kunnugt og öðrum um að ýmsir ágætir íslenskir lögfræðingar hafa haldið því fram að það sé einhver lagalegur vafi á því hverjar skuldbindingar íslenska ríkisins eru vegna þessara innstæðutrygginga. Það liggur hins vegar einnig fyrir að enginn málsmetandi maður utan lands og engin af vinaþjóðum okkar, ekki einu sinni Norðmenn sem þó hafa sýnt okkur mikið vinarþel í þessum vandræðum öllum, hefur tekið undir þann málflutning. Reynt hefur verið til hins ýtrasta að koma þessum sjónarmiðum á framfæri en enginn hefur tekið undir þau. Við getum haldið áfram að gala þangað til við erum hás en það breytir því ekki að enginn hefur tekið undir þetta og enginn virðist ætla að taka undir þetta. Sú leið er því einfaldlega ekki fær. (VigH: Hún er fær.)