137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:17]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna er drepið á athyglisverðan þátt. Vissulega er í þessu endurskoðunarákvæði og í þessu viðmiði stoð. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. Þetta endurskoðunarákvæði í samningnum er ekki þýðingarlaust og það er mjög mikilvægt. Í frumvarpinu eru sérstaklega tekin fram tengsl þessa endurskoðunarákvæðis og viðmiðunar við gjaldþolsútreikninga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hinna pólitísku viðmiða sem samþykkt voru af hálfu Evrópusambandsins áður en lagt var af stað í þessa vegferð sem vísuðu til fordæmislausrar stöðu Íslands. Þetta samhengi allt er mjög mikilvægt og ég held að það sé einmitt ein góð ástæðan fyrir því að ganga frá þessum samningi nú og koma honum í gegn í þinginu og þeim heimildum sem hér er óskað eftir til þess að geta akkúrat farið að reiða sig á þessi samningsákvæði. (Gripið fram í.) Við þurfum þá auðvitað að hafa samninginn til að geta reitt okkur á ákvæði hans. Það er nokkuð ljóst. (Gripið fram í.) Það er auðvitað ekki þannig að við getum farið að beita samningsákvæðum sem við erum ekki búin að samþykkja sjálf.