137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ágætt að fá að vita þegar maður kemur upp í púlt að hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar ekki að svara okkar spurningum í andsvörum. En ég verð líka eins og fyrirspyrjandi hér áðan að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessa ræðu. En um leið undirstrikar hún það svo rækilega að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald.

Við erum búin að hlusta á ræður ráðherra í dag, til að mynda hæstv. viðskiptaráðherra sem einmitt undirstrikaði það góða í íslensku samfélagi. Við erum með gott félagslegt kerfi. Við erum með vel menntaða þjóð eins og hann orðaði það. Við erum með gott heilbrigðiskerfi þannig að það hafa ýmsir góðir hlutir á tíma nýfrjálshyggjunnar verið gerðir og framkvæmdir. En síðan eru aðrir sem hafa farið miður og ofan af því verðum við að vinda.

Ég vil því ítreka og spyrja: Mun ekki hæstv. heilbrigðisráðherra styðja okkur í því að semja upp á nýtt?