137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:43]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra byrjaði mjög vel í ræðu sinni og hún var ágæt. En í andsvörunum fer honum aftur og ég ætla ekki að taka upp þann þráð. Ég vil nefnilega að þingmenn standi allir saman að því að vinna að þessu máli. Þetta er miklu meira mál en svo að það skipti einhverju máli hverjir séu í ríkisstjórn og séu ekki í ríkisstjórn. Það skiptir bara akkúrat engu máli. Það skiptir miklu meira máli að við náum einhverri sátt saman. Ég til dæmis tel að ríkisstjórnarskipti núna yrðu afskaplega slæm. Þau yrðu virkilega slæm til að bæta ofan á allt hitt, óöryggið. Ég skora því á hæstv. ráðherra að vinna með okkur að einhverri lausn sem er þannig að áhætta Íslands sé takmörkuð. Ég held að það sé númer eitt, tvö og þrjú að þessar þrjár þjóðir, Íslendingar, Hollendingar og Bretar komi sér saman um að leggja þær byrðar á íslenska þjóð sem hún getur staðið undir en ekkert umfram það því þá tapa þær allar þrjár. Allar þrjár þjóðirnar tapa ef Íslendingar geta ekki borgað og það er þetta sem við þingmenn eigum allir saman og öll saman að vinna að. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)