137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:12]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir biður stjórnarflokkana að hlusta á Sjálfstæðisflokkinn og vinna með honum. Ég sat í ríkisstjórn Geirs H. Haarde með Sjálfstæðisflokknum í tæp tvö ár og hef nokkra reynslu af því að hlusta á Sjálfstæðisflokkinn og vinna með honum. Sú reynsla færði okkur meðal annars þá stöðu sem Íslendingar eru í núna að hluta til.

Hér hefur verið hlustað, hér hefur verið unnið með, hér hafa auðvitað, eins og hv. þingmaður benti á, ýmis mistök verið gerð í gegnum tíðina, ekki bara í þau tæpu tvö ár sem Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn stjórnuðu saman landinu heldur líka í mörg ár þar á undan og í öll þau ár var Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um nokkuð vegna þess að hún fullyrðir hér að við getum samið aftur við Hollendinga og Breta. Vera kann að þetta sé tilfinning eða grunur um afstöðu. En mig langar til að spyrja hv. þingmann hvað hún í raun hafi fyrir sér í því að Bretar og/eða Hollendingar í fyrsta lagi mundu ganga aftur að samningaborði og hvað hún hafi þá fyrir sér í því og hverjar heimildir hennar séu um að það sé hægt og að það mundi nást betri samningur. Það er auðvitað ekkert hægt að ræða þetta hér í svona fullyrðingatóni um að ef til vill og kannski væri hægt að gera eitthvað annað seinna. Hv. þingmaður, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hlýtur þá að hafa rannsakað málið og hafa einhverjar heimildir um það.