137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:35]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir afar góða ræðu, en tel þó rétt að hnykkja á því sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi að hæstv. fjármálaráðherra hafi það hugfast í framgöngu sinni hér að þegar fram líða stundir verður mikil ábyrgð fólgin í þeim ákvörðunum sem nú eru teknar og hæstv. ráðherra getur ekki átt von á nokkrum einasta stuðningi frá samstarfsflokknum, Samfylkingunni, sem er ekki lengi að hlaupa frá öllum verkum sínum eins og við höfum séð í dag. Þessi flokkur virðist endurfæðast á hverjum degi sem nýr flokkur og allt sem gert hefur verið fram að því þurrkast út. Ég vona því að hæstv. fjármálaráðherra geri sér grein fyrir því að ekki sé mikils stuðnings að vænta þaðan.

Einnig af því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi að ekki hefði farið fram mat á greiðslugetu ríkisins áður en samningarnir eru undirritaðir þá má taka það fram í því samhengi að líklega var slíkt mat framkvæmt. Það var framkvæmt í Bretlandi, í breska fjármálaráðuneytinu og upplýst um það, eins og lesa má í þeim gögnum sem ríkisstjórnin hefur lagt hér fram, að Bretar töldu Íslendinga ekki geta staðið undir ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðnum og af þeim sökum var hryðjuverkalögum beitt meðal annars til að þeir gætu þó gripið eitthvað af eignum vegna þess að íslenska ríkið gæti ekki staðið undir þessu. Þetta voru Bretarnir búnir að meta mörgum mánuðum áður en menn fóru að spá í þetta hér enda lýsti breski forsætisráðherrann Gordon Brown því yfir í heimsfjölmiðlum að Ísland væri gjaldþrota. Hvernig stendur á því að Bretar eru að lána Íslendingum gríðarlegar upphæðir ef þeir telja ríkið í raun gjaldþrota? Getur það ekki haft eitthvað með að gera þau ákvæði samningsins sem segja að þeir geti gengið að eignum íslenska ríkisins?