137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að það hvílir mikil ábyrgð á herðum þingmanna í þessu máli. Það er stórt. En sú ábyrgð er í báðar áttir. Það er líka mikil ábyrgð sem mun hvíla á herðum þeirra sem ætla að hafna þessu samkomulagi. (SDG: Við öxlum hana.) Það gera að sjálfsögðu þeir sem þá afstöðu taka. En það skal enginn maður reyna að halda því fram að ábyrgðin sé bara á aðra hliðina. (Gripið fram í.)

Mat á þjóðhagslegum áhrifum í þessu máli hefur fyrst og fremst verið á hendi Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins og nú er það svo að unnið hefur verið að slíku mati í samstarfi meðal annars við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í allan vetur. Það hefur verið eitt helsta viðfangsefnið að reyna að kortleggja skuldastöðu þjóðarbúsins og þróunina í þeim efnum, greiðslugetu þjóðarbúsins og ekki síst dreifingu byrðanna. Sú vinna leiddi meðal annars til þess að lögð var mikil áhersla á það í samningaviðræðunum að fá langt lán og að fá afborgunarleysi í mörg ár. Hv. þingmenn þurfa ekki annað en skoða fylgigögn hér til að sjá af hverju. Það eru að skella á okkur í ár, árið 2011, árið 2012 og árið 2013 mjög þungar afborganir vegna þegar tekinna erlendra lána. Það er í þessu samhengi sem þetta mál er sett upp. Þetta mat hefur staðið yfir í allan vetur og gögnum um versnandi horfur um skuldastöðu þjóðarbúsins var komið inn í samningaviðræðurnar til að nota sem rök fyrir því að við þyrftum að fá svona frágang á málinu, hagstæð lánskjör og afborgunarleysi í mörg ár.

Skuldir sveitarfélaganna eru vissulega miklar. Þær eru að uppistöðu til, þær erlendu að minnsta kosti, vegna dótturfélaga og sameignarfélaga sveitarfélaganna einkum orkufyrirtækjanna og að sjálfsögðu eru þær hafðar með þegar skuldastaða hins opinbera búskapar í heild er metin eins og meðal annars er gert aftur í áætluninni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Loks verð ég að segja að hv. þingmaður hefur verið í einhverri annarri kosningabaráttu en ég ef hann telur (Forseti hringir.) að það hafi vantað eitthvað upp á að gerð hafi verið grein fyrir erfiðleikunum sem fram undan væru. (Forseti hringir.) Varð ekki ég frægastur fyrir að tala bara um skattahækkanir og niðurskurð?