137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra vilji hafa aukið samráð við sveitarfélögin. Hann orðar það þannig að það samstarf verði á milli ríkis og sveitarfélaga. Nú átta ég mig ekki á því hvað felst í orðinu ríki, hvort hann eigi einungis við um stjórnarmeirihlutann eða þá aðila sem eiga að veita stjórninni aðhald hér í þinginu því að samstarf á milli stjórnarmeirihlutans og minni hlutans á þessu sumarþingi hefur því miður verið mjög takmarkað. Ég hef þá trú miðað við stöðu mála á landinu í dag að þetta verkefni, þessi endurreisn sé einfaldlega þessum tveimur flokkum, Samfylkingunni og Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, ofviða. Ég hefði haldið að þeir þyrftu að fá alla þá aðstoð sem völ er á í þessu erfiða verkefni — því þeim er mjög tíðrætt um það hversu erfitt þetta er — frá stjórnmálamönnum úr öllum flokkum. Því miður verð ég að játa það hér að ég þekki ekki alveg þann hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon í dag fyrir þann hv. þm. Steingrím J. Sigfússon sem ég þekkti fyrir hálfu ári síðan eða átta mánuðum. Mér finnst vanta eldmóðinn. Mér finnst vanta kraftinn. Ef við höfum einhvern tíma þurft á ríkisstjórn að halda sem býr yfir eldmóði og býr yfir krafti þá er það á tímum sem þessum.

Ég vitnaði til þess áðan að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki einu sinni sett sig á mælendaskrá og fór ekki í andsvar þrátt fyrir að ég beindi ýmsu í hennar átt. Því er mjög dapurlegt að ræða þessi mál hér sérstaklega við hæstv. forsætisráðherra. Hún varð uppvís að því í morgun að svara hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur engu þegar hún innti hana eftir upplýsingum um grafalvarlega stöðu Landsvirkjunar og ríkissjóðs og hvernig þau mál tengdust en fékk engin svör. Ég held að við hæstv. ráðherra séum sammála um að það sé ekki samboðið hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands að koma fram með þeim hætti því við erum að kalla hér eftir upplýsingum á hverjum degi. Ég vona að þessi ríkisstjórn fari að leita víðar eftir samstarfi (Forseti hringir.) í samfélaginu því mér sýnist að þessir tveir flokkar valdi þessu verkefni einfaldlega ekki.