137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:01]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Allt ber þetta að sama brunni hjá stjórnarliðum að reyna að koma af sér ábyrgð í málinu og eru þar ýmsir tíndir til. En ábyrgðin á þeirri ákvörðun sem hér verður tekin liggur hjá þinginu og hjá hverjum og einum þingmanni. Það þýðir ekkert að skjóta sér undan því með því að vísa stöðugt í eitthvað sem gerst hefur áður, eins og þetta margumrædda umboð þingsins til ríkisstjórnarinnar. Það umboð hefur ekki verið uppfyllt svo þingið er svo sannarlega ekki skuldbundið til að greiða atkvæði út frá því. Ég varaði mjög við veitingu þess umboðs á sínum tíma en fékk iðulega þau svör, sérstaklega hjá samfylkingarfólki, að þetta væri ekki áhyggjuefni. Það væri bara verið að veita umboð til þess að fara í samningaviðræður og ef þær skiluðu ekki ásættanlegri niðurstöðu mundi þingið einfaldlega fella samninginn og á þeim stað erum við núna, svo að vísa sýknt og heilagt í þetta umboð hefur ekkert upp á sig þegar um er að ræða algerlega óaðgengilegan samning.

Hv. þingmaður nefndi tvær ástæður öðrum fremur fyrir því að samningurinn væri ásættanlegur. Í fyrsta lagi, þessi margumræddu 7 ára grið sem búið er að gera ítarlega grein fyrir að lítið hald sé í vegna þess að sú ráðstöfun hefði strax áhrif. Mistök íslensku bankanna voru þau að telja að með því að skuldsetja sig alveg gríðarlega og þurfa ekki að borga það fyrr en eftir nokkur ár, endurfjármagna sig seinna, þá væri þetta allt í lagi, þá hefðu menn grið á meðan. Það verða ekki til grið með skuldsetningu.

Hitt er að samninginn megi endurskoða komi í ljós að við höfum ekki greiðsluþol til. Ekkert ákvæði er um það að endurskoða samningana ef við höfum ekki greiðsluþol. Það er ákvæði um það að setjast niður og ræða málið. Telur hv. þingmaður virkilega í ljósi frammistöðu ríkisstjórnarinnar í þessu máli nú að ef sest yrði niður og málið rætt (Forseti hringir.) að einhverjum tíma liðnum þá stæðu menn sig betur?