137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:06]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mundi svo hvert var þriðja atriðið sem hv. þingmaður hafði tekið upp áðan. Ég heyrði hann ekki koma að því aftur núna en það var um það að geta tekið upp samninginn. Það er siðaðra manna háttur að standa við orð sín og tala saman. Eins og í þessum samningi er það grundvöllurinn fyrir honum, það er þetta seinna pólitíska viðmið og það gerist þannig í milliríkjaviðskiptum að það næst pólitísk niðurstaða, hún er bókuð (SDG: Gerðir …?) og það er unnið út frá henni. Já, við náðum ekki betri samningum. Ég tel að það sé yfirleitt ekki hægt að ná því sem við mundum kalla góðan samning í þeirri afleitu stöðu sem við erum í. (SDG: Og af hverju …?) Ég tel hins vegar, hv. þingmaður, og þingmaðurinn getur haft þá skoðun á því sem hann vill, það er mín niðurstaða í þessu máli að óvissan við þennan samning sé minni heldur en óvissan við að gera hann ekki. (SDG: Það er engin óvissa ef menn eru dauðir.) Ég hef skýrt frá minni niðurstöðu og þingmaðurinn getur haft sína.