137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:29]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin og vona að hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra séu að fylgjast með. Það er gott að hæstv. forsætisráðherra sé aftur komin í þinghúsið.

Mig langar til þess að velta upp nokkrum spurningum og um leið reyna að svara þeim fjölmörgu fullyrðingum sem á okkur hafa dunið í þessari umræðu. Ég held að það sé rétt, eins og margir þingmenn hafa komið inn á hér í sínu máli, að við verðum að komast upp úr skotgröfunum. Ég skal líka vera fyrsti maður til þess að viðurkenna að óneitanlega hleypur manni kapp í kinn þegar menn svara í útúrsnúningum eða með endurteknum rökum, jafnvel þó að búið sé að sýna fram á og sanna að þau eiga ekki við í þessu máli.

Í fyrsta lagi: Getur verið að almenningur beri ábyrgð á Icesave-reikningnum? Getur það verið að í allri þessari útrás hafi það verið þannig að íslenskur almenningur beri ábyrgð á einkafyrirtækjum vegna þess og eins og hefur komið fram í umræðunni þá voru ríkisbankarnir einkavæddir? En það er ekki þannig, hvorki úti í heimi né hér á Íslandi, að almenningur beri neins konar ábyrgð ef þau fyrirtæki fara á hausinn.

Hins vegar er deilt um hvort þessi innstæðutryggingatilskipun Evrópusambandsins leiði af sér að almenningur var sem ábyrgðarmaður í þessum Icesave-pakka öllum saman. Um það er deilt. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég mun aldrei nokkurn tíma verða sammála því eða sætta mig við þá staðreynd að við fáum ekki að fara dómstólaleiðina í þessu máli. Því hefur verið haldið fram að hinn aðilinn hafi einfaldlega hafnað því. Ég held að ef Íslendingar hefðu bara einu sinni í öllum þessum viðræðum sett hnefann í borið og sagt: „Ef þið samþykkið ekki að fara dómstólaleiðina þá munum við ekki borga.“ Þá hefði kannski hinn aðilinn séð sig knúinn til þess að fara fyrir dómstóla til þess að fá fullnustað kröfu sinni. Það er nú einmitt meginregla laga, íslenskra laga, laga allra vestrænna þjóða, að sá sem telur sig eiga kröfu á hendur öðrum aðila, að það er hann sem á að sækja þá kröfu fyrir rétti. Ég get heldur ekki sætt mig við að hér stígi íslensk stjórnvöld fram og segi: „Það var einmitt bara sett á okkur þumalskrúfan og svo var snúið upp á.“ Er það þannig og er þannig komið fyrir íslensku þjóðinni að hún sé farin að sætta sig við yfirgang annarra þjóða? Þá er gott að rifja upp hvernig staðan var hér í þorskastríðinu. Við ákváðum að færa fiskveiðilögsöguna út í 50 mílur. Það var mjög umdeilanlegt og við fengum ágjöf frá öðrum þjóðum. Við settumst hins vegar niður með Bretum og Bretar samþykktu að ef svo færi að Íslendingar mundu færa hana út í 200 mílur mundi slíkt fara beint fyrir dómstóla og við samþykktum það. Hins vegar ákváðu Íslendingar að færa fiskveiðilögsöguna út í 200 mílur og hvað gerðist svo í kjölfarið? Við höfnuðum því þvert gegn samningum að fara dómstólaleiðina og ef við lítum á söguna eru þetta einhver stærstu afrek íslenskra ráðamanna. Þetta gerði það að verkum að hér á landi hefur verið gott að búa, lífsskilyrði hafa verið með allra, allra besta móti og sambærileg ef ekki betri en hjá öðrum vestrænum þjóðum.

Af því að hæstv. heilbrigðisráðherra minntist hér á að heilbrigðiskerfið okkar væri undanþegið og það væri einmitt það sem við þyrftum að passa upp á að vernda þá vil ég einmitt benda á niðurstöðu OECD þar sem það komst að því að heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga væri lofsvert, það væri í fyrsta flokki og við þyrftum að standa vörð um það. Það er kannski út frá þessum ástæðum sem ég get ekki sætt mig við það að við tökum á okkur skuldbindingar sem við erum ekki lagalega skuldbundin til þess að greiða. Um það snýst þetta mál.

Ég ætla ekki að fara út í umræðu um það hverjum sé um að kenna. Hæstv. fjármálaráðherra kemur hér ótt og títt fram og segir að þetta hafi verið orðinn hlutur, bendir á Sjálfstæðisflokkinn — gleymir Samfylkingunni vegna þess að þau eru nú í ríkisstjórn saman — en segir að þarna hafi verið komist að samkomulagi um að íslensk stjórnvöld yrðu að greiða þessa samninga. Það er ekki þannig. Það getur bara ekki verið ef maður hugsar um þetta bara út frá rökrænum sjónarmiðum. Einstakir ráðamenn geta ekki skuldbundið þjóðina þannig að hún beri ábyrgð á skuldbindingunum.

Í fyrsta lagi geta þessar yfirlýsingar ekki fellt úr gildi einmitt tilskipunina um innstæðutryggingakerfið. Þær trompa ekki þá tilskipun. Í öðru lagi trompa þessar yfirlýsingar heldur ekki EES-samninginn, hvað þá ákvæði í stjórnarskránni okkar sem segir að allar ákvarðanir varðandi fjárskuldbindingar þurfi að vera samþykktar af Alþingi. Það er líka þess vegna sem við erum hér í dag að ræða þetta mál. Menn sjá það bara í hendi sér að ef það hefði verið búið að samþykkja þetta og ef við værum lagalega skuldbundin þá værum við ekki hér í dag að fjalla um málið og taka ákvörðun um það hvort við eigum að samþykkja ríkisábyrgðina á skuldbindingunni.

Hæstv. félagsmálaráðherra fullyrti hér áðan að svokallað Memorandum of Understanding gerði það að verkum að við værum lagalega skuldbundin. Hann talaði um stöðuumboð og þá meginreglu í þjóðarétti að ef ráðherrar lýstu yfir skoðun sinni þá væri það skuldbindandi fyrir þjóðina. Það er ekki meginregla í þjóðarétti. Ég ætla bara að leiðrétta þá villu hér og nú. Hins vegar er rétt að í einstaka tilviki — ég get nefnt hið svokallaða Grænlandsmál þegar deilt var um túlkun á því hvort norskur ráðherra hefði skuldbundið þjóð sína að þá var talið að hann hefði gert svo. En svo er ekki um fjárskuldbindingar vegna þess að fjárskuldbindingar þurfa að fara fyrir Alþingi. Það er Alþingi eitt og sér sem þarf að samþykkja samninginn. Það var heldur ekki þannig þegar þingheimur ákvað að veita umboð til þess að kanna mögulega hver staðan væri 4. desember síðastliðinn að við værum þá líka að veita fullt og ótakmarkað umboð til þess að skrifa undir samninga. Það var ekki þannig. Enginn þingmaður leit þannig á. Að sjálfsögðu var eðlilegt að við mundum kanna málið og hefja viðræður við Hollendinga og Breta, reyna að ná einhverri vitrænni niðurstöðu. En Alþingi var ekki að gefa frá sér vald sitt. Um það snýst kannski málið.

Við erum fullvalda þjóð. Fullvalda þjóð á rétt á því í alþjóðasamstarfi að láta reyna á rétt sinn. Það eru bara þær þjóðir sem eru undir þeirri ánauð að vera ofurseldar valdi annars ríkis sem hafa ekki þennan rétt. Ef við gefum þennan rétt frá okkur, hvað er þá eftir? Kannski snýst þetta mál um það hvort við ætlum að vera sjálfstæð þjóð, hvort við ætlum að standa fast í lappirnar og segja: Ef við fáum ekki að láta reyna á þann stjórnarskrárbundna rétt okkar sem fullvalda ríki að fara fyrir dómstóla þá munum við ekki samþykkja þessa nauðasamninga.

Í dag spurði ég hæstv. fjármálaráðherra hvort það gæti verið að einhver gögn ætti eftir að leggja fram í málinu. Í mínum huga er það stórkostlegt vanræksluatriði ef svo er. Nú hef ég heyrt og fengið upplýsingar um það að hæstv. utanríkisráðherra hafi fengið álitsgerð frá breskri lögmannsstofu sem virðist af einhverjum ástæðum hafa verið stungið undir stól og er ekki í gögnum málsins. Ég óska eftir því og spyr hæstv. forsætisráðherra, vegna þess að hún er komin hér í salinn, eða hæstv. fjármálaráðherra hvort það geti verið að álitsgerð sem kom frá virtri breskri lögmannsstofu um réttarstöðu Íslands skuli hafa verið stungið undir stól. Ég hef nefnilega heyrt að í því áliti komi mjög skýrt fram að Íslendingar hafi ekki skuldbundið sig hér á haustmánuðum til að greiða Icesave-skuldbindingarnar.

Það er kannski líka hægt að benda á þá staðreynd að þetta samkomulag var gert við Hollendinga. Samkomulag við Hollendinga getur ekki bundið Íslendinga gagnvart Bretum. Þetta var ekki einu sinni samkomulag. Ef menn telja að svo hafi verið mun þá það aldrei skuldbinda okkur gagnvart Bretum.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni hér áðan að ef dómstólaleiðin hefði verið fær þá hafi hún ekki verið það eftir 7. janúar. Þetta er mikill misskilningur. Það rann út frestur til þess að höfða mál gegn Bretum út af hryðjuverkalögunum 7. desember. Ég hef reyndar fengið upplýsingar um að þessi breska lögmannsstofa telji að fresturinn sé einmitt kannski ekki útrunninn, að hugsanlega sé enn þá hægt að höfða mál, að það sé líka hægt að höfða mál út af Heritable Bank sem var yfirtekinn og að þar liggi einhverjir 100 milljarðar. Getur verið að við séum búin í samningnum að samþykkja að fara ekki í mál? Getur verið að við höfum lagst svo lágt? Hins vegar get ég ekki séð að það að tíminn út af hryðjuverkalögunum rann út hafi nokkuð með þetta mál að gera, réttarstöðu okkar í þessu máli. Þetta er svona ein af þessum fullyrðingum sem er bara hent út til þjóðarinnar og sagt: „Svona er þetta bara, 7. janúar rann út tíminn.“ En það var varðandi hryðjuverkalögin, ekki varðandi lagalega stöðu okkar út af innstæðutryggingakerfinu eða hvað þá að við eigum að samþykkja Icesave-samningana.

Ég spurði líka hvort staðan væri þannig — af því að hæstv. fjármálaráðherra minntist á að við værum að fá bestu fáanlegu vexti — hvort það þýddi ekki að ef við þyrftum að leita nýrra lána þá værum við alltaf að fá verri vexti en þessa 5,55 og hvort það væri ekki rétt hjá mér að þá mundu þeir vextir hækka um leið. En ég fékk því miður engin svör.

Ég á lítinn tíma eftir. Ég ætla samt á þessum stutta tíma aðeins að segja að hér hefur verið haldið uppi þeim hræðsluáróðri að við munum ekki fá lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, hvað þá frá hinum Norðurlöndunum ef við samþykkjum ekki þennan samning. Það hefur verið staðfest hér að Norðurlandaþjóðirnar muni lána okkur. Það er búið að skrifa undir þá samninga. (Gripið fram í.) Samt reyndi hæstv. fjármálaráðherra á einn eða annan hátt að koma með þá söguskýringu að það væru einhvers konar tengsl á milli lánsins frá Norðurlöndunum og lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og svo við Icesave, að það væru einhvers konar tengsl þar á milli og við mundum hugsanlega ekki fá lánið einhvern tíma seinna. Þetta gengur ekki upp, kannski líka í ljósi þess að fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi, Franek Rozwadowski hefur lýst því yfir að ekki séu tengsl á milli lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Icesave-skuldbindinganna. En þessu er hent fram, að þjóðir heimsins muni beita okkur einhvers konar viðskiptabanni. Það liggur ekkert fyrir um það, engar ályktanir, engar samþykktir frá þjóðþingum þessara landa. En hræðsluáróðurinn gengur yfir. Ég vona að við komumst út úr þessu og ég vona innilega að hv. þingmenn (Forseti hringir.) Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs muni standa á sannfæringu sinni og (Forseti hringir.) greiða atkvæði gegn (Forseti hringir.) þessari ríkisábyrgð.