137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í þorskastríðunum höfðum við eitt vopn á hendi sem var hernaðarlegt mikilvægi Íslands. Það var mjög beitt vopn í því stríði og fyrir því gáfust Bretar upp. Það var hernaðarlegt mikilvægi Íslands á þeim tíma sem síðan hefur rýrnað mjög mikið. Í þessu stríði í haust stóðu Íslendingar frammi fyrir Bretum og Hollendingum en síðan öllu Evrópusambandinu eins og það lagði sig, vegna þess að Evrópusambandið — þeir menn voru ekki að gera þetta að gamni sínu, þeir óttuðust að trú og traust sparifjáreigenda í bankakerfinu mundi rústast. Það var óttinn sem dreif Breta og Hollendinga í það að vera svona harðir við Íslendinga. Menn óttuðust að það kæmi í ljós — sem er komið í ljós — að það er galli í tilskipunum Evrópusambandsins, þær virka bara í rólegu umhverfi. Þegar allt er rólegt þegar einn banki fer á hausinn á sjö ára fresti af hverjum hundrað, þá gengur þetta upp, þá virkar þetta kerfi. En þegar stór hluti fjármálakerfisins í einhverju landi, hvort sem það er Holland, Ísland, Bretland eða hvaða land sem er, fer á hausinn þá virkar kerfið ekki.

Það sem menn óttuðust var að sparifjáreigendur í Hollandi og Bretlandi sæju þetta og yrðu skelfingu lostnir og rifu út peningana sína og sá ótti hefði svo dreifst eins og eldur í sinu um alla Evrópu. Meira að segja fjármálaráðherra Japans — ég efast um að hann viti hvar Ísland er — fór allt í einu að hafa áhyggjur af Íslandi. Þetta er nefnilega angi af miklu stærra máli og mér finnst að hæstv. ráðherra og samninganefndin hefðu átt að segja við þessa samningsaðila okkar úti: Við erum að taka þátt í því að byggja upp traust sparifjáreigenda um alla Evrópu á bankakerfinu þar og við eigum að fá aðstoð við það.