137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:53]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þingmaður nefndi frestinn sem rann út 7. janúar og taldi ekki skýrt að hverju hann sneri þá er það einfaldlega þannig að bresk stjórnvöld gripu til aðgerða 8. október. Þær voru tvíþættar, það var annars vegar frysting allra eigna Landsbankans og tengdra eigna íslenska ríkisins á grundvelli hryðjuverkalaga og hins vegar tóku þeir yfir með valdi dótturfélag Kaupþings, breska bankann Singer & Friedlander, og samkvæmt breskum rétti er það þannig að menn hafa þrjá mánuði til að kæra slíkar stjórnvaldsaðgerðir til breskra dómstóla. Í tilviki Landsbankans rann sá frestur út án þess að mál væri höfðað. Hvorki íslenska ríkið né Landsbankinn gamli, sem hvor um sig hefði getað höfðað mál, gerði það.

Í þriðja tilvikinu höfðaði hins vegar gamla Kaupþing, eða þrotabú Kaupþings, mál sem nú er fyrir dómstólum með stuðningi íslenska ríkisins hvað varðar yfirtöku bankans Singer & Friedlander. Aðrar stjórnvaldsákvarðanir þessu tengdar, eins og yfirtakan á Heritable Bank, eru sama marki brenndar hvað þetta varðar, að menn hafa tiltekinn frest til þess að kæra stjórnvaldsákvarðanir af þessu tagi, þá eru það þær sem eru kærðar en um leið koma auðvitað efnisatriði málsins til dómstóla.

Varðandi það sem hv. þingmaður heldur hér enn fram, að ekki sé samhengi milli lausnar þessa máls og samstarfsáætlunar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn eða gjaldeyrislánanna frá Norðurlöndunum — þá þrýtur mig bara alveg úrræði til þess að sannfæra hv. þingmann, ef ítrekuð skjalfest gögn duga ekki til, t.d. það sem stendur hér í greinargerð frumvarpsins um breytingarnar sem gerðar voru á „Letter of intent“ í nóvember þar sem það er algerlega í gadda slegið að lausn Icesave-deilunnar sé hluti af því að samstarfið haldi áfram, eða fréttatilkynningu frá því í gær þar sem talað er um niðurstöðuna í samningaviðræðum um norrænu lánin (Forseti hringir.) og það sérstaklega tengt við lausn Icesave-deilunnar.