137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu, ég ætla nú ekki að segja óvenjulega málefnalega, en hún er a.m.k. með þeim bestu sem ég hef heyrt hér í dag. Ég tek undir með hv. þingmanni um hugleiðingar hans um hráskinnaleikinn, sem ég leyfi mér að kalla svo. Bakábyrgð ríkissjóða á einkareknu bankakerfi er auðvitað mikið umhugsunarefni. Við sjáum að einstakar Evrópuþjóðir hafa farið mismunandi leiðir í þessum efnum, allt frá því að gera eins og Írar, að lofa bara fullri ábyrgð á öllu saman, í paník að vísu eins og hún var uppi í haust, og síðan þær hræringar sem orðið hafa í framhaldinu, m.a. af því sem varð með því að Ísland var þvingað með þeim hætti sem raun ber vitni til að fallast á sína ábyrgð. Þetta er auðvitað pilsfaldakapítalismi, þetta er ekkert annað, og hann er illa útfærður, hann er óskýr og falinn og þetta er ekki gott fyrirkomulag.

Í öðru lagi tek ég undir það að hér er um að ræða meingallað regluverk og í raun og veru einhverja hugmyndafræði um að búa til einn risastóran sameiginlegan markað þjóðríkja þar sem þeir litlu eru settir undir sömu reglur og þeir stóru. Úr því verður auðvitað vitleysa sem ekki gengur upp. Reyndar er þetta ekki óþekkt fyrirbæri, samanber t.d. hið gríðarlega stóra bankakerfi í Sviss sem almennt hefur verið viðurkennt að væri á óbeina bakábyrgð alþjóðafjármálakerfisins, Bandaríkjamanna og fleiri, því að ella gengi það ekki upp.

Í sambandi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, já, við Íslendingar höfum auðvitað alltaf mótmælt því, eðlilega, að hann léti taka eðlilega samstarfsáætlun við eitt aðildarríki í gíslingu vegna óskyldra deilumála. Og það ber okkur að gera. Ég ætla ekki að fara að bera í bætifláka fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, auðvitað viðurkenna þeir ekki sjálfir að þannig sé það en tengsl þessara mála eru öllum ljós.

Beiting hryðjuverkalaganna var dapurlegur atburður sem á örugglega eftir að draga dilk á eftir sér í mannréttindasamhengi í Evrópu. Þar er þróunin farin að snúast við, eins og hv. þingmaður réttilega nefndi, þegar svartlistaðir menn sem beittir voru hryðjuverkalögum og hverra eignir voru kyrrsettar hafa nú loksins náð rétti sínum fyrir dómstólum. Hvers konar einstaklingar sem það svo eru sem þar eiga í hlut er annað mál. (Forseti hringir.) En við viljum að mannréttindi séu virt, líka gagnvart lögum af þessu tagi.