137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé eitthvert það stærsta mál sem hefur komið inn til þingsins um árabil. Þó að ég sé ekki búinn að vera lengi á þingi hefur maður fylgst með og þekkir svolítið söguna, og þetta er væntanlega eitt það stærsta mál sem hefur komið inn á okkar borð og þá tel ég með samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég vil í upphafi máls míns ítreka það sem formaður Framsóknarflokksins sagði í fjölmiðlum í gær, það er ekki markmið Framsóknarflokksins að koma þessari ríkisstjórn frá vegna þessa máls, þ.e. það er ekki markmið okkar að beita þessu máli til að hrekja ríkisstjórnina frá eða búa til sundrungu í liði hennar. Þetta mál er einfaldlega allt of stórt og allt of viðamikið til að menn geti leyft sér slíkt. Það er hægt að fara í alls konar slíka leiki með önnur mál og minna afgerandi eða sem hafa minni áhrif til framtíðar þannig að ég vil bara ítreka að það er ekki markmiðið, heldur þvert á móti. Ef við náum samstöðu um að skoða þetta mál betur veit ég að þingflokkur Framsóknarflokksins mun styðja við ríkisstjórnina í því verkefni.

Ég segi alveg hreint út að mér finnst mjög sérstakt að fjármálaráðherra skuli nánast einn bera hitann og þungann af þessu stóra máli þegar öllum er ljóst að samstarfsflokkurinn í núverandi ríkisstjórn ber gríðarlega ábyrgð á þeim tíma sem hann var í ríkisstjórn. Aðrir flokkar, þar á meðal Framsóknarflokkurinn, bera vitanlega ábyrgð líka á því umhverfi sem var hér áður. Ég undrast þess vegna að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekki fá meiri stuðning frá samstjórnarflokki sínum í þessu máli en það eru kannski ákveðnar skýringar á því. Þær skýringar koma að miklu leyti fram þegar við þingmenn rýnum í þau gögn sem hafa nú verið gerð opinber, ekki síst þau leynigögn sem ég leyfi mér að kalla, að á mörgum þeim blöðum kemur fram og kemur í ljós að það er undir forustu Samfylkingarinnar sem þetta mál var leitt, af hálfu utanríkis- og viðskiptaráðherra. Vitanlega á samstarfsflokkurinn á þeim tíma, Sjálfstæðisflokkurinn, líka hlut að máli, en ég fæ ekki betur séð eftir að hafa kynnt mér þessi gögn en að utanríkisráðuneytið hafi verið í forustu varðandi þetta mál.

Það kemur líka fram í þessum gögnum sem við höfum nú fengið aðgang að að pólitíkin hefur ekki skipt minna máli en viðskiptaleg sjónarmið því að beinlínis má lesa út úr þessum gögnum að breski Verkamannaflokkurinn hafi lagt mjög hart að systurflokki sínum á Íslandi að klára þetta mál með ákveðnum hætti. Það má beinlínis lesa það út úr þessum gögnum.

Mér finnst samt enn þá að það vanti gögn til þess að við getum fjallað um þetta mál í fullri sátt. Það eru upplýsingar er varða greiðsluáætlun út af þessum skuldum sem við þurfum að taka á okkur og eins varðandi eignasafn eða lánasafn Landsbankans eða hvað menn kjósa að kalla það, eignasafn Landsbankans. Ég hef kynnt mér þau gögn sem liggja fyrir, ég viðurkenni að ég hef ekki náð að kynna mér þau alveg ofan í kjölinn en ég hef náð að fara yfir bæði þessi svokölluðu trúnaðargögn eða leynigögn og þau gögn sem eru opinber, og það er ekkert í þeim sem breytir þeirri skoðun minni að þessi samningur sé afar vondur. Hins vegar varpa þau ákveðnu ljósi á söguna, þau varpa ljósi á það hvað gekk á hér, við hvað stjórnvöld voru að fást, bæði þá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna og svo núverandi ríkisstjórn.

Það er ekkert í þessum gögnum að mínu viti, ekki a.m.k. sem ég hef enn þá séð, sem breytir þeirri skoðun minni að þessi samningur sé afar vondur. Tilkoma hans er mjög ógeðfelld. Hún er í rauninni þannig, eins og kom fram held ég hjá hæstv. fjármálaráðherra, að við erum þvinguð eða nánast kúguð til að gera þennan samning, af þjóðum sem á einhverjum tíma voru kallaðar frændþjóðir okkar og vinaþjóðir. Það er mjög ógeðfellt að fara í gegnum þetta og átta sig á því hvernig þessar þjóðir hafa komið fram við okkur og ég vil að það komi hér fram að ég tel þeim til háborinnar skammar hvernig þær hafa komið fram við okkur. Það kom fram hjá einum ræðumanni hér í dag, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, að ráðamenn hafi brugðist í upphafi árs 2008. Mér þótti vænt um að hún skyldi segja þetta því að þetta er líklega í fyrsta sinn sem ég man eftir að samfylkingarþingmaður hafi viðurkennt hinn stóra þátt þess flokks í þessari atburðarás allri.

Hv. þingmaður minntist einnig á hin sameiginlegu viðmið og að mínu viti — ekkert bara að mínu viti, það kemur fram m.a. í þessum göngum, þessum trúnaðargögnum, leynigögnum — var sú túlkun uppi að þetta samkomulag eða það sem var verið að bjóða okkur og það sem við erum með hér stangast á við hin sameiginlegu viðmið.

Með leyfi forseta stendur hér:

„Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar“ — og nú skulu menn hlusta — „tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.“

Ég tek undir það sem kemur fram í þessum gögnum, þessum skilyrðum er ekki fullnægt, langt frá því.

Mikið hefur verið rætt um bréf sem er að finna í þessum gögnum, bréf sem kallast

Letter of Understanding eða eitthvað slíkt, (Gripið fram í: Memorandum of Understanding.) Memorandum of Understanding, já, sem hæstv. félagsmálaráðherra veifaði hér í dag. Mig langar þá aftur að ítreka það sem ég sagði í andsvari við ræðu hans, að ég lít svo á að við þingmenn getum tekið þessi gögn hér í salinn fyrst að hann getur það, að það sé sameiginlegur skilningur að búið hafi verið að semja við Hollendinga um að við ætluðum að borga ákveðna vexti og til ákveðið langs tíma.

Þegar þetta bréf er lesið er eitt ákvæði í þessu minnisblaði sem kveður á um að aðilar geti óskað eftir því að endurskoða þetta og slíkt, sem er vitanlega mjög mikilvægt. Síðan kemur fram í öðrum gögnum að í desember 2008 hafi Íslendingar bent á að þetta gæti ekki átt við lengur og rökstutt það með tvennu móti. Í fyrsta lagi að mikill ágreiningur væri uppi um lagaleg atriði og í öðru lagi að efnahagshrunið sem varð væri miklu stærra en menn óraði fyrir í byrjun október þegar minnisblaðið var gert. Ég ítreka orðið „minnisblað“ því að þetta er ekki bindandi samningur. Til rökstuðnings því má líka segja að Hollendingar hafa væntanlega ekki gefið það eftir ef þeir hafa haft tök á að fá þessa vexti greidda og annað. En fyrst og fremst var það klárlega sameiginlegur skilningur að menn ætluðu að horfa á það á þessum nótum, en síðan bara gerast hlutirnir miklu stærri og miklu alvarlegri þannig að upp kemur sú staða að það þarf að horfa á málið með öðrum hætti.

Það kemur líka fram í þessum gögnum og það kemur fram þarna í minnisblaði og undirstrikar það sem ég sagði áðan varðandi hin sameiginlegu viðmið sem samþykkt voru 2008, að þau voru ekki innantóm orð heldur skilyrði af hálfu Íslands. Ef þessar þjóðir sem við vorum að semja við hafa samþykkt þessi sameiginlegu viðmið hljótum við að geta látið reyna á þessi skilyrði en ég fæ ekki séð að þau séu virt í þessum samningsdrögum.

Í desember 2008 kemur fram að Íslendingar óskuðu eftir því við þessa ágætu aðila, þessar ágætu þjóðir, að okkur yrði veitt lán til 25 ára með 3% vöxtum og greiðslufresti í sjö ár. Þessu var hafnað af hálfu viðsemjenda okkar eftir stutta skoðun. Ég upplýsi þetta hér vegna þess að þetta er eftir að þetta svokallaða Letter of Understanding var ritað og því er alveg ljóst að menn voru enn þá að ræða kjör og útfærslu á samningi og öllu slíku þannig að þetta undirstrikar að mínu viti það að ekki ber að gera of mikið úr þessu Letter of Understanding eða hvað þetta heitir. (Gripið fram í: Memorandum.) Memorandum, já, ég man ekkert hvað þetta heitir.

Frú forseti. Það sem ég vil kannski segja hér, tíminn fer að styttast, er að sagan skiptir máli en hún skiptir kannski ekki alveg meginmáli varðandi þennan samning því að hún gerir hann hvorki betri né verri en hann er. Staðreyndin er einfaldlega sú að þessi samningur er óásættanlegur fyrir okkur sem þjóð. Hann er óásættanlegur að mörgu leyti. Í fyrsta lagi er að sjálfsögðu óásættanlegt að við séum þvinguð til að fara í þessa vegferð sem við erum í og það er óásættanlegt að við skulum hafa gefið eftir — ég vil ekki meina endanlega — a.m.k. tímabundið, rétt okkar til þess að láta á þetta reyna fyrir dómi. Löglærðir aðilar hafa bent á og núna síðast prófessor, held ég að hún sé, við Háskóla Íslands sem talaði á borgarafundi í Iðnó fyrir skömmu.

Hún segir beinlínis í áliti sínu, Elvira Méndez Pinedo, með leyfi forseta:

„Evrópudómstóllinn ætti í krafti valdheimilda sinna að skera úr um hvernig túlka eigi tilskipun Evrópusambandsins um innlánatryggingakerfi nr. 94/19/EB.“

Evrópudómstóllinn er samkvæmt þessu sá dómstóll sem á að fjalla um þetta. Og ég var mjög ánægður með að heyra að hæstv. fjármálaráðherra útilokaði ekki að með einhverjum hætti yrði það skoðað hvort þessi dómstóll færi í málið.

Flestir málsmetandi hagfræðingar sem hafa tjáð sig um þetta óttast að þessi samningur muni reynast okkur mjög dýr og að við munum varla ráða við hann. Nú síðast í dag var frétt í Ríkisútvarpinu þar sem rætt var við hagfræðimenntaðan þingmann þar sem hún lýsir því yfir að hún óttist að við munum ekki þola þessar skuldir.

Hv. þm. Illugi Gunnarsson kom hér inn á athyglisvert bréf sem var sagt frá í Morgunblaðinu 26. júní og það er í raun staðfesting á því að aðilar innan Evrópusambandsins voru búnir að átta sig á því að þetta kerfi var komið að fótum fram og hrunið. Kannski áttu menn, og þar á meðal hefur hæstv. fjármálaráðherra réttilega bent á það, að átta sig á þessu fyrir löngu. Maður veltir fyrir sér hvort enginn hafi tekið eftir því á sínum tíma þegar franski seðlabankinn sendi frá sér í skýrslu að hann teldi að hið evrópska innstæðutryggingakerfi ætti ekki við í kerfishruni.

Allar þessar upplýsingar og öll þessi gögn sem við lesum núna og sjáum benda í sömu átt. Það er verið að kúga okkur til þess að borga, til þess að verja kerfi Evrópusambandsins, og það er vitanlega óásættanlegt að við séum sett í þá stöðu.

Að mínu viti eigum við leið út úr þessu og ég held að sú leið væri mjög farsæl fyrir ríkisstjórnina, fyrir Alþingi og ekki síst fyrir þjóðina, að þessi samningur fengi ekki brautargengi á Alþingi. Það þarf að óska eftir því að honum verði breytt í ljósi breytinga sem orðið hafa í Evrópu, á Íslandi. Þá tel ég persónulega mikilvægast að breyta hlutum til tryggingar þessum samningi, varðandi lánakjör, lánstíma og fleira slíkt. Samninginn má ekki samþykkja óbreyttan, það er alveg kristaltært að þessi samningur eins og hann lítur út er allt of dýru verði keyptur fyrir Ísland. Og hvað ef eitthvað annað hangir á spýtunni sem þessar stóru og miklu þjóðir hafa látið í veðri vaka við okkur eða sett okkur upp við vegg með? Þá megum við ekki láta það kúga okkur (Forseti hringir.) til þess að samþykkja þennan samning.

Gleymum því ekki — fyrirgefðu, frú forseti — að þeir vilja þessa peninga.