137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[18:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum ósammála um a.m.k. tvennt, ég og hæstv. fjármálaráðherra, og það er að það sé endilega fullreynt að við eigum að borga þetta. Ef það er hins vegar þannig að við þurfum að borga þetta þá eru þessi kjör að mínu viti — í ljósi efnahagsmála þjóðarinnar, í ljósi þeirra tekna sem við höfum, í ljósi annarra skulda sem við höfum — slæm kjör og við getum ekki greitt þetta.

Ef ég hef tekið rétt eftir eru lánveitendur okkar að taka vaxtamun á þessum lánum, þá eru þeir að taka eitt komma eitthvað prósent í einhvers konar þóknun eða til sín af þessum kjörum. Mér finnst það mjög óeðlilegt. Ég er enginn sérfræðingur í milliríkjaviðskiptum eða einhverju slíku en það er mjög óeðlilegt þegar ríki er að lána ríki, innan einhvers sviga sem telst björgunarpakki eða hjálparpakki, að mögulega sé verið að græða á því. Ég veit ekki betur en vinir okkar Færeyingar hafi lánað okkur að vísu miklu lægri upphæð með engum vöxtum þannig að ég fæ ekki séð og ég get ekki skilið hvernig menn geta talið að þetta séu svona góð kjör í ljósi þess sem við sjáum líka annars staðar þó svo að hæstv. ráðherra bendi á þetta.

Sé það þannig að við þurfum að borga þetta, sem ég tel ekki fullreynt, ber okkur að semja betur. Ég ítreka að þetta eru 600 til 700 milljarðar — menn deila um hvað það er nákvæmlega sem við þurfum að borga — jafnvel um þúsund milljarðar með vöxtum, þessir aðilar vilja fá þessa fjármuni okkar og þeir eru tilbúnir til þess að gera ýmislegt til þess að fá að komast í þá.