137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:00]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu eins og þær hafa margar verið hér í þessari mikilvægu umræðu í dag og ég tek undir með hv. þingmanni að ég sakna þess að hv. þingmenn stjórnarliðsins taki ekki þátt hér í þessari umræðu. Fjórir stjórnarliðar hafa haldið ræður í þessu máli sem fjallar um mikilvægustu skuldbindingar og ábyrgðir sem verið er að hella yfir íslenskt samfélag — fjórir.

Ef við tökum lið stjórnarandstöðunnar hafa um 34 stjórnarandstæðingar, að meðtöldum þeim sem eiga eftir að tala hér í kvöld, tekið til máls en aðeins fjórir stjórnarliðar. Þetta mál er borið fram af stjórnarflokkunum og ég hefði haldið að það væri lágmarksvirðing að stjórnarliðar og kannski ekki síst hinir nýju og fersku þingmenn stjórnarflokkanna blönduðu sér í umræðuna. Það er alveg fáheyrt að nær enginn fjárlaganefndarmaður er staddur hér við þessa umræðu fyrir utan einn, hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, en fjárlaganefnd á eftir að fjalla um þetta mál.

Við erum greinilega að taka mikla áhættu. Stjórnarflokkarnir vita greinilega mjög takmarkað því að þeir treysta sér ekki í umræðuna um efnisákvæði þessa samnings. Ég vil því spyrja hv. þingmann, sem er reyndur sem formaður í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, hvort honum finnist það við hæfi að við afgreiðum þessar skuldbindingar héðan án þess að vita hver heildarskuldastaða íslensks þjóðarbús er í erlendri mynt. Það hefur komið fram í umfjöllun í fjölmiðlum að Seðlabankinn vill ekki gefa upplýsingar um hverjar erlendar skuldir þjóðarbúsins eru. Við erum að tala um auka þær ábyrgðir og skuldbindingar til verulegra muna. Er ekki nauðsynlegt að það liggi fyrir áður en við tökum efnislega afstöðu til þessa máls?