137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Menn hafa verið að bera saman skuldsetningu Íslands og annarra þjóða, Japans og Bretlands o.s.frv. en gleyma í því sambandi að þær þjóðir skulda yfirleitt sínum eigin þegnum og geta prentað peninga og geta hreint út sagt búið þannig til verðbólgu í sínu landi. Við erum hins vegar með þessum samningi að taka á okkur erlenda mynt sem þýðir að við ráðstöfum þar með hluta af útflutningi okkar til mikils fjölda ára.

Ég nefndi hérna áðan að með öðrum skuldum ríkissjóðs fari hver einasti fiskur í það að borga næstu 13 árin þó að við séum með ál og þó að við séum með ferðamannaiðnað til viðbótar. Fjármálamarkaðurinn er hruninn, við getum ekki lifað bara á því tvennu.

Mér finnst að efnahagslega séð þurfi menn að stíga mjög létt og varlega til jarðar og ég skil ekki að menn skuli ekki hafa sagt Hollendingum og Bretum að þessar þrjár þjóðir hafi lent í sama pyttinum hvað varðar það að innlánstryggingakerfi Evrópusambandsins hafi brugðist. Nú skulum við öll saman, allar þessar þrjár þjóðir, taka höndum saman um að leiðrétta þetta og halda uppi trausti erlendra sparifjáreigenda á bönkum í þeim löndum en þó þannig að Íslendingar geti borgað. Það er nefnilega ekki hagur Hollendinga eða Breta að Íslendingar geti ekki borgað. Það er alveg furðulegt að þeir skuli setja okkur í þessa stöðu. Ég hugsa að hollenska sendinefndin sem fjallaði um þetta hafi ekki áttað sig á því hvað Íslendingar eru fáir, hvað efnahagslífið er lítið í samanburði við efnahagslíf Hollands og Bretlands. Hún hefur bara ekkert áttað sig á þessu.