137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Það er hárrétt, frú forseti, og ég ætlaði að nefna það í seinni ræðu minni, það er alls konar áhætta sem tengist þessu. Það er áhætta á því að pundið falli gagnvart evru, evran falli gagnvart pundinu o.s.frv., verð á fiski og áli. Hvernig þróast það í framtíðinni? Það er líka áhætta.

Það sem ég var að kalla eftir og hef verið að kalla eftir er áhættugreining á öllum pakkanum. Hvað eru miklar líkur á því að allt greiðist fyrir eignir Landsbankans? Í júlí árið 2029 munum við vita það, þá er búið að kasta teningnum, þá vitum við hvað greiddist. Fram að þeim tíma vitum við það ekki. Núna vitum við það ekki, nú er ákveðin áhættudreifing á þessu. Það eru ákveðnar líkur á því að allt greiðist, það eru ákveðnar líkur á því að 75% greiðist, það eru ákveðnar líkur á því að minna en 30% greiðist og þá eru Íslendingar í vondum málum. Það er það sem ég vil útiloka með því að Alþingi skoði að flytja breytingartillögu um að sett sé hámark á lánveitingarnar, á ríkisábyrgðina þannig að við lendum ekki í þeirri stöðu, sem eru kannski ekki miklar líkur á — kannski eru bara 6% líkur á því eða eitthvað slíkt — en sú staða má ekki koma upp. Ég vil ekki þurfa að beita neyðarákvæði samningsins um að þjóðirnar eigi að tala við okkur því að það er ekki einu sinni sagt í því ákvæði að þeir eigi að semja. Þeir eiga bara að spjalla við okkur um hvort þeir vilji semja. Þegar það spjall hefst byrjar það svona: Heyrðu, skoska togarasjómenn langar mikið til að fiska á Íslandi. Eða: Þetta enska orkufyrirtæki langar til að kaupa hlut í Landsvirkjun o.s.frv. Menn geta þá ímyndað sér hvernig framhaldið verður.