137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:33]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvort er betra að Ísland springi í loft upp eða ríkisstjórnin? Ríkisstjórnir koma og fara en Ísland á að vera og Ísland verður. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það.

Það er alveg klárt, virðulegi forseti, að þó að þessi samningur verði felldur er ekki þar með sagt að ríkisstjórn Íslands sé fallin, það er bara ekki svo klárt eða í gadda slegið. (Gripið fram í.) Hún hefur stöðu til þess að taka málið upp vegna þess að íslenska löggjafarsamkundan tók sjálfstæða afstöðu og líkaði ekki við það samkomulag sem lá á borðinu. Það er alltaf að gerast í öllum samningum, alþjóðasamningum og öðrum samningum um allan heim.

Það er erfitt fyrir okkur sem erum byltingarmenn að upplagi og höfum oft dáðst að Vinstri grænum fyrir þjóðerniskennd þeirra, sjálfstæði og metnað, hugsun til landsins, hugsun til fólksins — stundum er erfitt að greina hvort þeir elska meira landið eða fólkið. Þarna þarf að taka af skarið. (Gripið fram í.) Við verðum að verja íslenskt sjálfstæði með kostum og göllum og það gerum við ekki með því að láta berja okkur ofan í svaðið.

Við eigum ekki að rugla saman óskyldum málum eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Norðurlöndin, öll nema Færeyingar, og Evrópulöndin öll sameinast um að keyra á okkur (Forseti hringir.) með offorsi, valdbeitingu og nauðgun.