137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:03]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þeirri skoðun sem hv. þingmaður hefur á þessu máli því að 1 milljón til eða frá skiptir ekki miklu máli þegar við setjum hlutina í það niðurlægjandi samhengi að við Íslendingar höfum skuldbundið okkur til að greiða 7 millj. evra vegna þess kostnaðar sem hlaust gagnvart Hollendingum við það að reka mál sitt. Það er litla Ísland sem mun borga 1,4 eða 1,5 milljarða kr. við útgjöld hollenska ríkisins vegna málarekstrarins gagnvart okkur. Niðurlægingin er algjör, frú forseti, og ég bendi enn og aftur á að þó að frú forseti sé meðlimur í Samfylkingunni getur hún ekki beitt sér í þessari umræðu og enn bólar ekkert á fulltrúum Samfylkingarinnar í þessa umræðu. (Gripið fram í.) Ég kalla eftir því að þeir komi til þessarar umræðu í ræðustól, haldi ræðu og geri frekari grein fyrir (Forseti hringir.) stefnu sinni í þessum málum.