137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:07]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki mitt keppikefli að ríkisstjórnin falli á þessu máli. Það er mitt keppikefli, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, að ríkisstjórnin haldi velli en að Icesave-samningurinn verði felldur og annað komi í staðinn sem íslensk þjóð getur unað við. Lýðræðislegar kosningar 25. apríl fóru með þeim hætti að þessir tveir flokkar mynda ríkisstjórn og þeir gera það þar til þeir ákveða sjálfir að slíta. Við sem erum í stjórnarandstöðu höfum sagt og munum vonandi áfram segja að við erum tilbúin í því ástandi sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir að veita henni brautargengi og styðja við þau mál sem teljast til heilla fyrir þjóðina. En við áskiljum okkur rétt til að hafa skoðanir á því sem okkur líkar miður. Í pólitík geta menn verið sammála um markmið en menn greinir á um leiðir. Mínar skoðanir fara sjaldnast saman við skoðanir Vinstri grænna en ég afsegi ekki á einu augabragði að þaðan geti ekkert gott komið þannig að ég geti stutt það.

Ég hældi hæstv. fjármálaráðherra og hv. þingmaður talaði um dugnað. Ég held að ég kalli það frekar einurð í því starfi sem hann sinnir og hvernig hann stendur að baki því máli sem hann flytur. Hann er ekki í óskastöðu, ég er honum gersamlega ósammála en hann er einarður í því verkefni sem hann er að vinna.