137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:14]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem komið hefur fram á hv. þingmenn og hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar. Það er alveg með ólíkindum hvað þeir sýna þinginu enn og aftur mikla vanvirðingu með fjarveru sinni úr þingsal og vil ég af því tilefni rifja upp ummæli hæstv. félagsmálaráðherra sem hann viðhafði í ræðustóli í dag. Honum dugði ekkert minna, þeim ágæta manni, en að hér væru mættir allir forustumenn stjórnmálaflokkanna. Við hin, aumir, óbreyttir þingmenn látum okkur duga að það mæti einhverjir hv. þingmenn Samfylkingarinnar til að taka þátt í þessari umræðu og gera grein fyrir afstöðu flokksins á þessum vettvangi.

Það er alveg ljóst að við erum að fjalla um mál sem er til komið fyrst og fremst vegna meingallaðs regluverks Evrópusambandsins sem við innleiddum 1999 og kemur í ljós núna að það stenst ekki skoðun. Það getur ekki verið á ábyrgð einnar þjóðar að taka á sig slík áföll sem hér hafa orðið vegna slíkra galla. Hafa verið fluttar margar ágætar ræður og mörg rök fyrir því í dag að það kerfi sem innleitt var tekur ekki á því kerfishruni sem hér varð heldur var það ætlað til að taka á slæmri stöðu einstakra bankastofnana.

Við ræðum síðan þann samning sem verið er að leggja fyrir þingið, niðurstöðu samningaviðræðna sem staðið hafa undanfarna mánuði. Það er kannski fyrst og fremst samningaferlið og allt samráðið sem vekur það vantraust sem umræðan endurspeglar hér í dag. Það hefur ekkert samráð verið, það hafa engar upplýsingar komið og er eðlilegt við slíkar aðstæður að margar spurningar vakni þegar svo mikið og mikilvægt málefni er til umræðu og skoðunar. Upplýsingar frá samninganefndinni komu alls ekki til okkar hv. alþingismanna í samningaferlinu og þegar við sjálfstæðismenn fengum kynningu á samningnum frá aðalmanni samninganefndarinnar, Svavari Gestssyni, var okkur sagt að hann hefði um það bil 20 mínútur til að funda með okkur. Og þegar hann var spurður tæknilegra spurninga varðandi þennan samning voru svörin þau að hann hefði ekki svör við þeim, það væru aðrir sem væru sérfræðingar á því sviði. Svo var þessum upplýsingum dreift í gær og í dag, nú fáum við upplýsingar um viðræðurnar, um allt sem fram hefur komið. Fram undan hlýtur þá að vera miklu tímafrekari skoðun þingsins.

Það veit ekki á gott þegar við ræðum þennan samning og heyrum síðan málflutning sérstaklega hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar sem talar eins og hæstv. félagsmálaráðherra gerði í dag, að það skín í gegn svo ríkur vilji til að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið að það yfirtekur allt annað í þessu ferli. Það skín svo í gegn að ástæðan og viljinn til að ganga að þessum samningi eigi rætur sínar að rekja í áhuga þess flokks og kannski sérstaklega þess hæstv. ráðherra á að komast í aðildarviðræður og undir sæng Evrópusambandsins. Ég trúi því ekki þegar upp verður staðið að hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Vinstri grænna muni beygja svo frá í stefnu sinni í þeim málum að þeir láti teyma sig alla leið eins og virðist vera að gerast í þessum viðræðum.

Vitnað er til minnisblaðs, Memorandum of Understanding, sem hafi verið þungt í skauti í þessum samningaviðræðum. Það er síðan ítrekað hrakið og bent á fullyrðingar og yfirlýsingar þar að lútandi sem hrekja hreinlega þá staðreynd og það kemur alveg klárlega fram í ákveðinni yfirlýsingu í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar frá því seint á síðasta ári. Komið hefur fram að þá væri nær að reyna að fara dómstólaleiðina, fara þá leið sem eðlileg er þegar svo djúpstæður ágreiningur er á milli samningsaðila að fá dómstóla til að fjalla um hver raunveruleg staða okkar er, fá fullvissu um stöðu okkar í slíkum viðræðum. Það er mjög sérstakt þegar viðbrögð samningaþjóða okkar eru á þann veg að slík leið komi ekki til greina. Það gefur því auðvitað byr undir báða vængi, virðulegi forseti, að það sé óhreint mjöl í pokahorninu, að þar sé eitthvað sem menn vilji ekki draga upp og einnig hræðslan við kerfiskarlana, að þetta muni leiða til enn frekari vandræða í bankastarfsemi Evrópu og jafnvel víða um heim og þess vegna séum við ein látin bera ábyrgð.

Niðurstaða samningsins er eins og við hefðum algerlega tapað öllum málflutningi gagnvart dómstólum og þurfum ein að bera ábyrgðina. Við hefðum ekki getað fengið verri niðurstöðu úr dómstólaleiðinni. Áhættan er öll okkar. (Gripið fram í.) Nei, við hefðum ekki getað fengið það, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Áhættan er öll okkar og hæstv. fjármálaráðherra sagði í dag að hafi þjóðin efni á þessu geti hún staðið við skuldbindingar sínar, það komi í ljós eftir 7 ár. Hver er það sem borgar brúsann ef illa fer? Það er auðvitað þjóðin sem borgar brúsann og hæstv. heilbrigðisráðherra kom í ágætri ræðu sinni í dag inn á sáttaleiðir. Hann sagði að hann vildi ekki láta öryrkjana og láglaunafólkið í landinu borga brúsann. En hvaða vegferð erum við að hefja með þeim málum sem komið hafa frá hæstv. ríkisstjórn þegar kemur að niðurskurði? Er ekki einmitt verið að beita hnífnum gagnvart öldruðum og öryrkjum? (Gripið fram í: Jú.) Er ekki einmitt verið að láta þann hóp súpa seyðið af þessu fyrstan? Við getum ekki farið þessa leið, virðulegi forseti, við getum ekki sætt okkur við þá stöðu sem við erum sett í með þessum samningi. Við getum ekki sætt okkur við þær leiðir sem ríkisstjórnin velur okkur út úr þessum vanda. Þær eru algerlega óásættanlegar, einkum í ljósi þess að á borðinu liggja mjög vandaðar og yfirvegaðar tillögur í skattamálum frá okkur sjálfstæðismönnum sem eru miklu manneskjulegri og koma miklu minna við heimilin og fyrirtækin í landinu, svo ég tali ekki um hóp aldraðra og öryrkja.

Það verður hneisa fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn ef það kæmi í ljós að þessar Evrópusambandsþjóðir gætu beitt þeim þrýstingi innan stjórnar hans að það drægi eitthvað úr aðstoð við okkur í þessum hremmingum. Ég hef enga trú á að það verði. Við verðum að fá á borðið samning sem þjóðin getur staðið við. Það er mikill munur á okkur og t.d. Bretum í þessu sambandi í þeim hremmingum sem við förum í gegnum. Þeir geta gert upp skuldir sínar í sínum gjaldmiðlum. Þeir geta sett prentvélarnar í gang í sínu heimalandi og prentað sinn gjaldmiðil með þeim einu afleiðingum að það verður tímabundin verðbólga á þeim bæ. Hjá okkur er seðlaprentun framleiðsla. Hjá okkur er seðlaprentunin fólgin í því að við veiðum meiri fisk, að við veiðum meiri hval, að við stundum meiri stóriðju og ferðaþjónustu, með öðrum orðum að við nýtum náttúruauðlindir okkar. Þar komum við að merg málsins í þessu sem setur okkur í mikinn vanda þegar kemur að hæstv. ríkisstjórn. Hæstv. viðskiptaráðherra sagði í dag að það væru auðlindir okkar sem mundu vinna okkur út úr þessum vandamálum. Hann tekur þar undir með sérfræðingum OECD frá því í síðustu viku þegar þeir sögðu að það væri stóriðja sem mundi hjálpa þessu landi á lappirnar aftur. Það væri bjart yfir þessu landi vegna þess hversu ríkt það væri af náttúruauðlindum. En sérfræðingum OECD og hæstv. viðskiptaráðherra er greinilega ekki kunnugt um þá stefnu sem núverandi ríkisstjórn rekur í þeim málum eða það stefnuleysi. Við horfum fram á glötuð tækifæri á þessum vettvangi. Hæstv. fjármálaráðherra reyndi í umræðu fyrr í vikunni að gera lítið úr málflutningi mínum á þessum vettvangi og fór að tala um álverssinnana eins og andstæðingar öflugs iðnaðar grípa gjarnan til þegar stóriðju ber á góma. En við horfum fram á glötuð tækifæri sem eru á miklu fleiri sviðum en í álversiðnaði, eins ágætur og hann er og það hefur verið rakið áður. Við horfum fram á að þessi ríkisstjórn hefur hreinlega þá stefnu að gera öllum þessum atvinnurekstri erfiðara undir fæti. Hún ætlar að gefa eftir þann árangur sem við náðum í Kyoto-viðræðunum varðandi loftslagsmál, hún ætlar að boða aukið auðlindagjald á þau fyrirtæki sem nýta náttúruauðlindir í landinu upp á milljarða á ári. Hvaða skilaboð eru fólgin í því til þeirra fyrirtækja sem okkur er nú lífsnauðsyn að horfi til þessa lands. Við ættum að gera öflugan hóp sölumanna út af örkinni til að laða þau til okkar með skattaívilnunum og boðum um náttúruvæna orku til þeirrar starfsemi.

Hæstv. ráðherra sagði í dag að ef við fengjum marga mánuði eins og júní værum við á réttri leið. Það er alveg rétt. En hvernig ætlum við að ná þessum mörgu mánuðum eins og júní nema með því að auka útflutningsverðmæti þjóðarinnar? Hvernig í ósköpunum? Með rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þau spretta af þeim stærri og þjónustu við þau. (Fjmrh.: Þetta er rugl.) Nei, þetta er ekki rugl, hæstv. ráðherra. Þetta er grundvallaratriði og það eru allir sérfræðingar í kringum þig sammála um að það er á þeim grunni sem þessi þjóð getur byggt sig upp aftur. Við getum ekki miðað við júní eins og hann er í dag þegar nánast enginn innflutningur nema bráðnauðsynlegur er til landsins. Við getum ekki búið við það. Samt er jöfnuðurinn ekki hagstæðari en raun ber vitni. (Gripið fram í.) Fjármálaráðherra sagðist hafa lagt sig allan fram og ég efast ekkert um það. En við verðum að gera betur og hann verður þá að kalla fleiri að borðinu með sér. Við verðum að fá á borðið samninga sem við getum staðið við. Grundvallaratriðið er auðvitað fólgið í því að þak verði sett á þær greiðslur sem við innum af hendi sem hlutfall af þjóðarframleiðslu okkar. Það verður að vera skilyrði. Ef auðlindanýting í framtíðinni gefur okkur meira, ef hér koma til aðrir flokkar í stjórn eða ef skynsemin nær til hæstv. fjármálaráðherra og þeirra stjórnarflokka sem hér eru um að nýta auðlindirnar betur með auknum og góðum afrakstri fyrir þessa þjóð, ef Hatton-Rockall eða Drekasvæðið fara að skila okkur greiðum við þetta hratt upp. Ef ekki, ef þetta verður erfiðari og brattari brekka greiðum við þetta hægar upp. Það getur ekki verið samningsþjóðum okkar keppikefli að setja þjóð á vonarvöl.

Sá hræðsluáróður sem talað var um og stundaður var í fjölmiðlunum í kvöld er ekki sá áróður sem þessi þjóð þarf á að halda núna. Hún þarf á miklu uppbyggilegri umræðu að halda. Ég vil taka undir með hæstv. heilbrigðisráðherra þegar hann talaði í dag, til að byrja með varðandi ræðu hans þar sem hann sagðist vilja skoða hvort við sjálfstæðismenn værum mögulega að nota þessa umræðu og þetta mál til að fella ríkisstjórnina. Nei, virðulegi forseti. Sjálfstæðismenn hafa það ekki að markmiði að fella ríkisstjórnina í þessu máli. Sjálfstæðismenn hafa það ekki að markmiði að nota sömu meðul og hæstv. ríkisstjórn notaði til að komast til valda, nefnilega að selja þjóðinni eitthvert lýðskrum sem hún hefur alls ekki ætlað sér að standa við og getur ekki staðið við. Við ætlum ekki að gera það en við erum tilbúin til samvinnu. Við erum tilbúin til að taka nú til hendinni, vinna út frá þessum drögum, en það er alveg ljóst að hæstv. fjármálaráðherra verður að gera samningsaðilum grein fyrir því að þingið þarf langan tíma til að setja sig inn í þetta mál. Það verður ekki afgreitt á örfáum dögum eða vikum. Við þurfum langan tíma og við þurfum að fara fram á endurupptöku þeirra viðræðna sem átt hafa sér stað til að ná ásættanlegri niðurstöðu í þær viðræður og fyrir þessa þjóð.