137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Rétt áðan áttu sér stað athyglisverð orðaskipti milli hv. þm. Jóns Gunnarssonar og Birkis Jóns Jónssonar sem vörðuðu fjarvist þingmanna Samfylkingarinnar frá þessari umræðu. Það er rétt að geta þess að hæstv. núverandi forseti er úr Samfylkingunni en er hér í hlutverki forseta og getur því ekki verið til svara fyrir sinn flokk. Ég er að velta fyrir mér hvort hæstv. forseti getur upplýst um hvort almennt hafi verið einhver misbrestur á því að þingmönnum og ráðherrum Samfylkingarinnar væri kunnugt um að þessi umræða færi fram í kvöld, að hér yrði rætt fram eftir kvöldi um þetta risastóra mál sem jafnvel er fullyrt í fjölmiðlum að geti haft áhrif á stöðu ríkisstjórnarinnar. Getur verið að skilaboðum hafi ekki verið komið með nægilega skýrum hætti til ráðherra og þingmanna Samfylkingarinnar um að þessi umræða fari nú fram?