137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:38]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. forseta út í fundarstjórn, hvort skilaboðum hafi verið komið til þingmanna og hæstv. ráðherra Samfylkingarinnar. Mér er nær að halda að það sé einhver árshátíð hjá Samfylkingunni í kvöld og þá votta ég hæstv. forseta samúð mína fyrir að geta ekki verið með félögum sínum því að hingað hefur enginn komið í allt kvöld, eða er eitthvert ógnarástand innan Samfylkingarinnar? Hvernig stendur á því að enginn þingmaður Samfylkingarinnar eða hæstv. ráðherra er viðstaddur þessa umræðu sem við í stjórnarandstöðunni höfum reynt að ná samningum við stjórnarliða um að ljúka fyrir tiltekinn tíma? Þá skyldi maður ætla að Samfylkingin ætti að sýna okkur þá virðingu að vera í það minnsta viðstödd þessa umræðu. Ég spyr því hæstv. forseta hvort einhverjir á skrifstofu þingsins hafi lyft tóli og reynt að ná símasambandi við einhverja af þingmönnum eða hæstv. ráðherrum Samfylkingarinnar.