137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem talað hafa hér á undan mér. Það skýtur skökku við að Samfylkingin skuli ekki taka þátt í þessum umræðum og raunar hefur það verið þannig alveg frá upphafi, frá því að þessir samningar voru kynntir hefur samfylkingarfólk látið lítið fyrir sér fara. Maður sér þau stöku sinnum gægjast fyrir horn þegar verið er að ræða Icesave en þátttaka í umræðu og röksemdafærsla, ég tala ekki um útskýringar á því sem gekk á í fyrstu stjórninni sem Samfylkingin átti sæti í — það hefur farið lítið fyrir því.

Ég tel því rétt að þessum fundi verði frestað a.m.k. þar til hæstv. forsætisráðherra getur verið með í umræðunni því að eins og ég nefndi hér fyrr í dag held ég að hæstv. forsætisráðherra veiti ekkert af því að hlusta á þessa umræðu. Það er mjög ósanngjarnt gagnvart Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að Samfylkingin skuli skilja þann flokk einan eftir með þetta mál.