137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef sagt það á fundum fjárlaganefndar að ég er mjög hugsi yfir því hvernig við vinnum þessi mál. Ég hef líka sagt að ég teldi í raun og veru ekki eitt einasta smáfyrirtæki vera rekið með þeim hætti eins og við vinnum hér. Það eru engin greiðsluplön, það er engin heildarsýn yfir það sem við erum að gera sem er annars gríðarlega mikilvægt í þessum málum í dag.

Þú spyrð hvað ég hefði gert ef þetta hefði komið fyrir í sveitarstjórninni. Því er fljótsvarað: Ég hefði rekið bæjarstjórann vegna þess að þessi vinnubrögð eru ekki í lagi.

Hv. þingmaður velti fyrir sér aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég er mjög hugsi yfir því af því að ég stóð í þeirri meiningu að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri kominn til að hjálpa íslenskri þjóð upp úr efnahagshruninu, þessari litlu fámennu þjóð. Ég velti því hins vegar alvarlega fyrir mér hvort reyndin sé önnur, hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé hér á vegum Breta og Hollendinga til að komast yfir auðlindir okkar. Ég er mjög hugsi yfir því. Eins og þetta lítur út fyrir mér er þetta þvílíkt fen sem við erum að fara út í að ég held að við komumst ekki upp úr því. Það hræðist ég mjög. Hins vegar ítreka ég að ég vona svo sannarlega, ef sú hörmulega niðurstaða yrði á Alþingi að samningurinn yrði samþykktur, að ég hafi rangt fyrir mér um þetta.

Svo velti ég fyrir mér hugsunarleysi Samfylkingarinnar. Er þetta það sem er í kaupunum? Er þetta aðgöngumiði inn í Evrópusambandið? Ég er líka mjög hugsi yfir því. Á að sætta sig við allt til að við komumst þangað inn? Ég er mjög hugsi yfir því líka.