137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að svara spurningu hv. þingmanns um gögnin. Hér eru þær möppur sem hv. þingmanni er kunnugt um. Hér er mappa með 68 fylgiskjölum og hér er mappa með 24. Þetta er þannig unnið að þeir sem að þessu hafa komið, embættismenn í ráðuneytum og stofnunum, hafa farið í gegnum skjalabunkana og reynt að taka út úr þeim allt sem þeir telja að máli skipti og sé upplýsandi eða hafi gildi fyrir þessa umræðu. Meðferð skjalanna hefur verið unnin þannig að í samráði við rannsóknarnefnd Alþingis og reyndar forseta Alþingis hefur verið útbúið þetta fyrirkomulag, að greina á milli þeirra gagna sem íslensk stjórnvöld hafa ekki heimildir til að birta af eigin frumkvæði, þeir þurfa til þess samþykki gagnaðilanna. Það eru fyrst og fremst minnisblöð frá pólitískum fundum sem ekki er venja í milliríkjasamskiptum að gera opinber. Það er af ástæðum sem ég þykist vita að hv. þingmaður þekki til sem eru m.a. þær að menn telja að fundir verði með öðrum hætti ef slíkt er venjan. Ég held að verkið hafi verið unnið af mikilli samviskusemi og reynt að tryggja að menn hefðu aðgang að öllum þeim gögnum sem málið varða og máli skipta. En auðvitað er skjalabunkinn í heild sinni gríðarstór sem getur haft einhverja skírskotun í þessu máli. Hér er t.d. ekki valið að vera með þykk bréf sem mér er kunnugt um af því að þau komu til mín frá breska fjármálaráðuneytinu og vörðuðu eingöngu frystinguna og málefni hennar. Utanríkismálanefnd hefur hins vegar verið upplýst um þau bréf og fengið afrit af þeim, að ég held. Auðvitað má lengi ræða hversu þykkur bunkinn hefði átt að vera en þetta er besta svarið sem ég get gefið, að þeir sem að málinu komu hafi af samviskusemi reynt að tína til þessi gögn þannig að þingmenn fengju sem haldbestar upplýsingar.