137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[22:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég náði ekki að klára öll atriði ræðu minnar áðan og ætla að halda áfram. Ég legg til að hv. fjárlaganefnd sem fær þetta mál til afgreiðslu vísi því til annarrar nefndar þingsins, efnahags- og skattanefndar, þar sem ég á sæti þannig að ég geti fjallað þar um efnahagsleg áhrif þessa frumvarps (Gripið fram í: Og utanríkismálanefndar.) — og utanríkismálanefndar, já. Ég á ekki sæti þar en ég reikna með því að sem flestar nefndir þingsins fái þetta mál til umfjöllunar þannig að þingmenn geti fjallað um það beint og spurt um það í nefndum sínum. En ég verð að fara hratt yfir sögu því að tíminn styttist.

Ég legg mikla áherslu á að menn læri af hruninu, að rannsóknarnefndin starfi hratt og vel og fái upplýsingar eins og mögulegt er. Eins legg ég áherslu á að við getum refsað þeim sem brutu lög fyrir hrun og jafnvel eftir hrun, ekki vegna einhverrar refsigleði heldur vegna þess að það er svo mikilvægt að búa til nýtt traust og nýjan aga í þessu kerfi okkar.

Ljóst var að það var ákveðin valdbeiting í haust. Fyrstu tvo mánuði eftir hrun var greinilega valdbeiting á sviði gjaldeyrismála og ég hef hugleitt hvernig hægt er að fá upp á yfirborðið hvað hafi gerst þegar útflytjendur áttu innstæður á Ítalíu og um alla Evrópu en fengu ekki gjaldeyrinn heim. Svo var beðið um staðgreiðslu á útflutningi þannig að Seðlabankinn lenti í þeirri skelfilegri stöðu að eiga varla fyrir lyfjum, olíu og öðrum lífsnauðsynjum fyrir þjóðina. Menn trúa því ekki erlendis.

Svo hefur verið rætt um lagalegar skyldur. Ég fór í gegnum það að samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins voru það innlánsstofnanir sem eiga að borga þetta en Bretar og Hollendingar ákváðu að víkja frá því vegna þess að þeir vildu halda uppi trausti manna á innlánsreikninga.

Ef ég kaupi hús og fer í greiðslumat gengur það ágætlega upp. Greiðslumatið segir að ég geti keypt húsið. Síðan kaupi ég jeppa og mér er sagt að það sé allt í lagi að kaupa jeppa miðað við tekjur og annað sem ég hef. Svo kaupi ég annan jeppa. Aftur er mér sagt að það sé allt í lagi. Svo kaupi ég sumarbústað, fer í utanlandsferð og aftur er mér sagt að þetta gangi ágætlega. En samanlagt gengur þetta alls ekki upp og það er það sem mér finnst menn vera að gera aftur og aftur. Þeir gera nákvæmlega sömu mistökin og einstaklingar gerðu en gagnvart miklu stærri hagsmunum. Menn eiga að taka allt dæmið eins og það leggur sig og boða til friðarráðstefnu, tala við kröfuhafana, bankana. Bankarnir gera sér líka væntingar um að fá peninga, tala við Icesave, tala við einhverja út af jöklabréfunum og taka allt í einn pakka. Við megum ekki kaupa hús, síðan jeppa, svo annan jeppa og svo sumarbústað o.s.frv.

Ég ætlaði að koma inn á mat á eignum Landsbankans. Það er hægt að meta einstaka eignarpósta. Þarna eru innstæður. Þær eru nokkuð öruggar. Þarna eru skuldabréf, þau eru óöruggari, þarna eru hlutabréf, þarna er krafa á nýja Landsbankann. Það er líka heilmikil áhætta fólgin í því. Þarna er mat á gengisáhættu íslensku krónunnar og pundið á móti evrunni o.s.frv. Við þurfum líka að meta hvernig útflutningsverð þróast, hver er verðbólga í myntunum, pundum og evrum. Ef það væri verðhjöðnun í þessum löndum bið ég guð að hjálpa okkur. En ef það væri myndarleg verðbólga í pundi væri það fínt, þá hækkar verðið á fiskinum í pundum og þá eigum við auðveldara með að borga. Þetta er áhættan sem við erum að taka.

Og neyðarlögin, halda þau, frú forseti? Það er líka gífurleg áhætta sem við þurfum líka að meta. Ég legg til að við Íslendingar og allir þingmenn vinnum öll saman að þessu máli, að hreinlega hver og einn þingmaður vinni að því. Þess vegna sakna ég svo mikið þeirra þingmanna stjórnarliða sem ekki hafa mætt í dag, ekki einu sinni til að að hlusta á umræðuna. Ég sakna þess mikið að fá ekki að heyra sjónarmið þeirra í þessu máli þannig að við getum unnið saman að því að finna á þessu lausn. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn ræði saman um þetta því að við erum að taka ákvörðun um ríkisábyrgð og hún er annars eðlis en venjulegar ríkisábyrgðir. Venjulega eru veittar ábyrgðir fyrir 10 milljónir og svo er það búið. Þá veit maður hver ríkisábyrgðin er. En hér er verið að veita ríkisábyrgð fyrir einhverju sveiflukenndu með ákveðnum líkum. Þar vinnum við allt öðruvísi.

Svo vil ég taka fram varðandi stjórnarskipti að ég teldi það, eins og ég sagði fyrr í dag, vera mjög slæmt ef við skiptum um stjórn núna. Þótt ég sé ekki hlynntur þessari ríkisstjórn held ég að það væri mjög slæmt fyrir íslenska þjóð að fara að skipta um ríkisstjórn núna. (Forseti hringir.) Ég mundi greiða atkvæði gegn því og verja ríkisstjórnina falli.