137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:25]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Ég er ánægð að sjá að hæstv. fjármálaráðherra er kominn í salinn. Ég vonast til að hæstv. forsætisráðherra sé einhvers staðar og fer fram á það við virðulegan forseta …

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill geta þess að hæstv. forsætisráðherra er komin.)

Ég sé að hæstv. forsætisráðherra er komin í hliðarherbergi.

Virðulegi forseti. Ég á ekki von á því á mínum þingferli eða margra okkar sem sitjum á Alþingi að við munum takast á við erfiðara mál en það sem er fyrir framan okkur núna. Ég held líka að mörg önnur mál sem tengjast hruni bankanna í haust og þeirri alþjóðlegu kreppu sem geisar nú muni verða okkur þungbær, þung í skauti. Ég vonast til þess að okkur auðnist í þessum sal að taka réttar ákvarðanir, ákvarðanir til framfara fyrir þjóðina þannig að við getum komist úr þessum vanda eins fljótt og kostur er.

Hæstv. heilbrigðisráðherra er mælskur Húnvetningur og hélt snjalla ræðu í gær. Mér fannst margt gott koma fram í hans máli. Mér fannst margt ekki gott sem þar kom fram einnig. Hæstv. heilbrigðisráðherra er á þeirri skoðun að það muni ráðast af því hvernig stjórnarandstaðan hagar sér og þá sér í lagi Sjálfstæðisflokkurinn, að það muni hafa áhrif á það hvernig hann snýr sér í þessu mikilvæga máli. Vegna þess vil ég segja það sem mína skoðun að ég held að það sé ljóst að ríkisstjórn sem leggur fram mál af þessum toga sé að sjálfsögðu nokkuð viss um að málið fari í gegn með stuðningi þeirra sem ríkisstjórnina styðja þannig að örlög þessa máls í heild sinni eru náttúrlega ekki í höndum stjórnarandstöðunnar þótt það skipti hins vegar mjög miklu máli hvernig stjórnarandstaðan talar og hvaða afstöðu menn taka til málsins bæði í bráð og lengd.

Það hefur komið fram hér að málið sé af þeirri stærðargráðu að það eigi ekki endilega að fylgja flokkslínum heldur eigi menn núna sem aldrei fyrr að fylgja sinni sannfæringu. Þetta heyrist gjarnan hjá efasemdarmönnum innan ríkisstjórnarflokkanna. Þá finnst mér líka skína í gegn að menn óttist að ef málið fari ekki í gegn sé ríkisstjórnin komin að fótum fram. Ég vil segja það sem ég hef margoft sagt í þessum stól og ég ætla að segja það aftur að það óskar þess enginn hér, og það geri ég alls ekki, að ríkisstjórninni mistakist við það verk sem hún stendur frammi fyrir. Þess óskar enginn að stjórnarkreppa verði í þessu landi. Ég var á þeirri skoðun í vetur að þau umrót sem urðu á sviði stjórnmálanna gerðu það að verkum að þau verkefni sem fram undan voru tefðust og það hefur komið á daginn. Þau töfðust og enn hafa orðið tafir á. Við erum ekki enn þá komin á beinu brautina eftir þær miklu tafir. Það er ekki til heilla fyrir þjóðina að valda frekari óvissu en orðin er. Þetta mál snýst ekki um það hvort ríkisstjórnin standi eða falli. Þetta mál er nefnilega stærra en nokkur ríkisstjórn. Það skiptir meira máli hvernig hag þjóðarinnar verður til lengri tíma háttað.

Skuldir íslenska ríkisins eru orðnar gígantískt miklar, 1.800 milljarðar kemur fram í skýrslu hæstv. fjármálaráðherra. Þá eru ótaldar ýmsar aðrar skuldir svo sem skuldir Seðlabanka, skuldir vegna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, skuldir vegna Noregs, ég tala ekki um þær skuldir og skuldbindingar sem ég óttast að við munum núna leggja á herðar þjóðarinnar með Icesave-samkomulaginu. Fyrir 1.800 milljarða má reka Háskóla Íslands í 163 ár. Það eru allar tölur komnar á haus. Óvissan í Icesave-málinu hleypur ekki á örfáum milljörðum. Hún hleypur á hundruðum milljarða. Þær tölur sem við nú tölum um að þurfi að bæta við, þær lánalínur, lánsloforð sem nú eru fyrir þinginu á vegum efnahags- og skattanefndar eru upp á tæpa 300 milljarða. Við erum alveg hætt að tala um einn og tvo milljarða. Við tölum bara um hundruð milljarða. (Gripið fram í: Ekki milljónir?) Það er langt síðan við hættum að tala um milljónir. Þetta gerir það að verkum að maður verður dálítið ónæmur fyrir því hverjar skuldirnar eru og þá líka ónæmur fyrir því hversu miklar tekjur þurfi að vera hér til þess að hægt sé að standa undir þeim. Ég mun taka mína afstöðu á grundvelli þess hvort við getum borgað þessar skuldir sem er verið að leggja á þjóðina. Þessi samningur gerir ráð fyrir sjö ára hléi, að við fáum sjö ára hlé til að takast á við þann vanda sem nú er og það er rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að næstu ár verða gríðarlega erfið og það er rétt að það er sá vandi sem menn kannski standa frammi fyrir akkúrat í dag. En hinn vandinn, hinar skuldirnar hlaupa ekki í burtu. Bretar og Hollendingar munu ekki gefa neitt eftir. Bretland hefur aldrei verið þekkt fyrir það að gefa þumlung eftir í neinu máli. Þeir eru ekki farnir að skila gersemunum frá Egyptalandi sem eru á British Museum. Ég á ekki von á að þeir munu gera það. Þeir munu ekki sýna Íslendingum neina linkind og þeir hafa ekki gert það í þessu samkomulagi.

Það kom fram hjá fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í útvarpinu í gær að ástæðan fyrir því að vaxtakjörin væru betri nú en í haust væri sú að vandi þjóðarinnar væri miklu stærri núna en menn héldu að hann væri í haust. Ég hugsa að það sé líka vegna þess að það hefur bara svo margt breyst í heiminum frá því í október. Menn hafa séð betur og betur hversu mikill vandinn er. Mér finnst að þessi ríkisstjórn verði að segja okkur frá því hvernig hún ætli sér að safna peningum til að borga allar þessar skuldir.

Í gær kom fram hjá einum hv. þingmanni að það væru ekki bara Íslendingar sem skulduðu mikla peninga. Það gerðu Bretar líka. Já, en þeir gera það í sterlingspundum. Þeir skulda peninga í sinni eigin mynt. Það skiptir engu máli hversu mikla peninga við prentum uppi á Íslandi. Við borgum ekki þessar skuldir með þeim. Eina leiðin fyrir Íslendinga til að borga sínar skuldir er sú að afla meiri gjaldeyristekna. Öðruvísi verður það ekki gert. Það eru nefnilega bara tvær leiðir alveg sama hvernig þetta Icesave-samkomulag fer. Þær skuldir sem hvíla nú á þjóðinni verða einungis greiddar annaðhvort með því að leggja slíkar byrðar á þjóðina að lífskjörin hér stórversna eða hitt að menn fari strax í það að skapa hér grundvöll til að auka tekjur þjóðarinnar. Ég gagnrýndi það í skýrslu hæstv. fjármálaráðherra á dögunum að mér þótti ekki nóg þar fjallað um það hvernig menn ættu að snúa sér í þessu.

Við tölum mikið um það hversu vel menntaðir við erum Íslendingar og að við séum ung þjóð og kraftmikil, að við eigum miklar auðlindir og að í raun blási um margt byrlega hér og það er rétt. En það er hægt að drepa niður kjark í þjóð. Það er hægt að gera hana vonlausa og dapra ef hún sér ekki fram á að geta lifað mannsæmandi lífi í sínu landi. Núna þarf ríkisstjórnin og núna þurfa þeir sem með völdin fara á Íslandi að telja kjark í þessa þjóð og koma með leiðarljós um það hvernig við ætlum að borga þær skuldir sem á þjóðina hafa verið lagðar. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að mörg mistök voru gerð í aðdraganda þessa hruns sem hafa orðið til þess að því miður eru skuldir þjóðarinnar óþarflega miklar svo ekki sé meira sagt.

Þetta Icesave-samkomulag finnst mér vera vont. Mér finnst það vont vegna þess að ég finn ekki þetta endurskoðunarákvæði sem á að veita okkur þetta mikla skjól sem alltaf er verið að tala um í þessum sal. Ég er búin að lesa þetta ákvæði fram og aftur. Það er ekkert sérstaklega sterkt. Það er ekkert sérstaklega mikið endurskoðunarákvæði í þessu. Ég get ekki fallist á það sem talsmaður Samfylkingarinnar sagði í gær, hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, að það væri upplagt fyrir okkur að samþykkja þennan samning strax svo við gætum farið að nýta okkur endurskoðunarákvæðin. Svona er þetta ekki. Þeir sem hafa sannfæringu fyrir því að þessi samningur sé það besta sem hægt sé að gera í þessari stöðu munu væntanlega samþykkja þennan samning og þeir væntanlega trúa því að við séum borgunarmenn fyrir þeim peningum sem á að reiða þarna af hendi. Við þeirri spurningu vil ég fá svar og í hv. fjárlaganefnd verður þeirrar spurningar spurt og það þarf að koma fram af hálfu stjórnvalda hverjar skuldir þessarar þjóðar séu í heild sinni, ekki bara skuldir ríkisins vegna þessa hruns heldur líka skuldir fyrirtækja beint við útlönd. Allt er þetta í erlendri mynt. Allt er þetta á þessum örfáu krónum sem við núna höfum í útflutningstekjur. Þessu þurfa menn að svara. Ég hefði líka viljað sjá í þessu samkomulagi að að þessu sjö ára tímabili liðnu yrði ákveðið endurskoðunarákvæði um að þá skyldu menn setjast niður og kanna hversu mikið hafi fengist upp í þessar eignir, hversu miklu þessar eignir hafi skilað. Það er full ástæða til að vera mjög áhyggjufullur yfir því hverju þær muni skila. Það er full ástæða til að vera mjög varfærin í því hvað út úr þessu geti komið. Þessi óvissa upp á hundruð milljarða er náttúrlega það alversta við þennan samning og það samkomulag og það er nokkuð sem er erfitt að komast út úr. Málið er þannig vaxið í grunninn að það er erfitt að komast út úr þessari miklu óvissu, alveg sama hvernig samið hefði verið. Vegna þess að eignir standa þarna á móti þá er ákveðin flækja þarna og þess vegna er svo brýnt að endurskoðunarákvæðið sé skýrt, að eftir sjö ár eigi menn að setjast niður og kanna það hvort íslenska þjóðin geti borgað þessar skuldir.

Það er rétt sem fram hefur komið að margt mun gerast á þessum sjö árum og væntanlega vitum við sjálf eftir fimm ár hvort við getum gert þetta, hvernig okkur hefur lukkast fram að þeim tíma. Þess vegna verðum við strax að fara að hugsa um þann tíma. Við verðum strax að fara að hugsa um hvernig við ætlum að hafa íslenskt þjóðfélag að sjö árum liðnum, hvaða tekjur eigi að standa undir þessum skuldum. Gengur í salinn hæstv. viðskiptaráðherra sem hefur ekki áhyggjur af því að við getum safnað nógu miklum gjaldeyristekjum. Ég er í sjálfu sér líka vongóð um að það verði hægt ef menn ætla sér að fara í þau verkefni eða hlutast til um það að búa til tækifæri fyrir ný fyrirtæki, fyrir nýjar útflutningsgreinar og fyrir þær útflutningsgreinar sem fyrir eru. Ég hef því miður ekki séð svo margt sem bendir til þess að svo sé um þessar mundir. Það er þetta sem ég vil sjá.

Ég vil að ríkisstjórnin og hæstv. fjármálaráðherra einbeiti sér að því núna að skapa efnahag þjóðarinnar til lengri tíma byggðan á grundvelli trausts útflutnings. Ég spyr hann að því hvernig hann ætli að fara að því að borga þessar skuldir öðruvísi. Það er alveg sama hversu mikið yrði skattlagt hér. Það væri hægt að skattleggja íslensku þjóðina upp í rjáfur. Það mundi ekki borga þessar skuldir. Það skiptir bara engu máli.

Ég fór í morgun af stað hingað niður eftir, kvaddi fjögurra ára gamla dóttur mína, hugsandi um þetta Icesave-samkomulag. Það er svo einkennilegt með þetta mál að þetta er líka dálítið tilfinningalegt mál vegna þess að stórkostleg skuldsetning þjóðarinnar stefnir öryggi hennar í ákveðna hættu. Ég vil ekki hugsa það til enda að þetta litla barn hafi ekki tök á því menntakerfi og þeim möguleikum sem við höfðum. Ég trúi því að það sé ekki svo. Ég er viss um að hægt sé að byggja Ísland aftur upp og gera það aftur að því góða samfélagi sem það hefur alltaf verið

Við höfum oft staðið frammi fyrir erfiðum ákvörðunum gegnum kynslóðirnar. Ég er viss um að þeir menn sem hér eru á veggjunum mundu ekki víla það fyrir sér að taka þungbærar ákvarðanir núna til heilla fyrir þjóðina í framtíðinni. Það munum við ekki heldur gera en í því efni skiptir öllu máli að menn hugsi það langt fram í tímann að þeir sjái fram á að hægt verði að greiða þessar skuldir en ekki bara þetta sjö ára hvíldartímabil sem fram undan er vegna þess að það verður ekki það skjól sem menn halda að það verði.