137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var dálítið mikið af spurningum. Ég vona að mér takist að svara þeim öllum og ég þakka kærlega fyrir þær. Ég hreinlega veit ekki af hverju það er ekki plan B. Ég hefði talið það mjög eðlilegt að það væri plan B ef þessi samningur fellur úr gildi hvort sem það væri að skipa nýja samninganefnd eða fá einhverjar upplýsingar um hvað gerist, hvernig við ætlum að bregðast við því, hvernig við ætlum að halda áfram þessari vegferð. Ég óska bara eftir því frá hæstv. forsætisráðherra. Það er jafnvel mögulegt að þetta sé hluti af þessum hræðsluáróðri. Það er erfitt að geta sér til um það. En ég held að ástæðan fyrir því að það er keyrt svona hart á þennan samning sé einfaldlega að þetta eigi að vera aðgöngumiði inn í þessar aðildarviðræður við Evrópusambandið og mér finnst þessi aðgöngumiði orðinn okkur ansi dýr og get ekki stutt hann.

Samkvæmt því sem ég hef kynnt mér varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hv. þm. Þór Saari er í leyfi og hefur verið í Suður-Afríku að ræða við aðila frá OECD sem hafa verið að hjálpa Afríkulöndum upp úr svona krísu sem við erum að sigla inn í og öll þeirra, það er svolítið merkilegt að hver einasti aðili sem hann ræddi við sagði: „Ekki þiggja lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Segið því upp. Ekki skrifa undir þennan samning.“ En það er kannski ekkert mark takandi á einhverjum erlendum aðilum sem hafa reynslu af svona málum.

Auðvitað vantreysti ég Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Ég hef kynnt mér mjög vel hans starfsemi og ég er mjög hissa á því að hæstv. fjármálaráðherra skuli tala þeirra máli. Þetta er nánast eins og að vera í skrýtnum draumi.