137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:42]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Mér þykir það ansi hart sitjandi á Alþingi Íslendinga þar sem mér er ætlað það hlutverk að gæta hagsmuna almennings að hæstv. fjármálaráðherra skuli beina því til okkar í stjórnarandstöðunni að við höfum gefist upp og við eigum bara að samþykkja þennan samning því eins og málatilbúnaður hæstv. ráðherra var í gær þá sagði hann efnislega: „Ef hv. þingmenn samþykkja ekki þennan samning þá munum við í haust skríða á hnjánum til Hollendinga og Breta og grátbiðja þá um að taka þennan samning og fá þessi skilyrði samþykkt hér, grátbiðja á hnjánum.“ Það er nú virðingin sem hæstv. fjármálaráðherra hefur í þessu máli og það er metnaðurinn. Ég ætla að segja það við hæstv. fjármálaráðherra að ég hef ekki gefist upp fyrir hönd íslensku þjóðarinnar í þessu máli. Ef einhver hefur sýnt ábyrgðarleysi í þessu máli þá er það hæstv. ríkisstjórn sem skrifaði undir Icesave-samkomulagið án þess að hafa fyrir framan sig greiðsluáætlun, greiðslugetu íslensku þjóðarinnar. Það lá ekki fyrir. Ef það er ekki ábyrgðarleysi þá veit ég ekki hvað ábyrgðarleysi er. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

Ég spyr líka hæstv. forsætisráðherra sem hefur nú ekki séð ástæðu til þess að tjá sig neitt í þessari umræðu sem er forkastanlegt, hvort hún sem ráðherra efnahagsmála viti hverjar heildarskuldir hins opinbera eru í erlendri mynt. Við höfum heyrt það úr fjölmiðlum — af því að við erum vön því þingmenn hér að heyra allt fyrst úr fjölmiðlum — að Seðlabanki Íslands vilji ekki gefa upp hverjar heildar erlendar skuldir hins opinbera eru. Eigum við bara að samþykkja þetta samkomulag hér án þess að vita það? Hverslags ábyrgðarleysi er það hjá hæstv. ríkisstjórn sem veit greinilega ekki hverjar heildarskuldir hins opinbera eru, hjá ríkisstjórn sem gerði ekki einu sinni greiðsluáætlun áður en skrifað var undir Icesave-samkomulagið?

Nei, við höfum ekki gefist upp og við höfum talað fyrir því í stjórnarandstöðunni að við eigum að standa saman sem einn maður, þingmenn hér, og reyna að fá betri samning. Ég held að ef við stöndum sameinuð í þessu máli en ekki sundruð eins og hæstv. ráðherra talar fyrir þá verðum við sterkari, (Gripið fram í: Rétt.) sterkari sem þjóð. (Gripið fram í: Já.) Við skulum fara til nýrra viðræðna bein í baki, ekki bogin eins og hæstv. ríkisstjórn er í þessari umræðu í salnum. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)

Frú forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. forsætisráðherra sem sagði á Alþingi í gær að hún væri að moka framsóknarflórinn hvort það sé virkilega svo að hæstv. ráðherra beri enga ábyrgð á stöðu efnahagsmála í landinu í dag. Ég ætla að minna hæstv. ráðherra á að það var í ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem Icesave-reikningarnir voru opnaðir í Hollandi. Ég ætla að minna hæstv. forsætisráðherra á að það var í tíð Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sem Icesave-reikningarnir áttfölduðust í Bretlandi. (Gripið fram í.) Hæstv. forsætisráðherra sat þá í ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Hæstv. forsætisráðherra er ekki heilög í þessari umræðu og það er móðgandi beinlínis að forustumaður í ríkisstjórninni skuli ekki taka til máls í þessari umræðu. (Gripið fram í: Hver var viðskiptaráðherra?) Og hver var viðskiptaráðherra í tíð Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar 2007–2009? Var það ekki Samfylkingin? Síðan koma hv. þingmenn Samfylkingarinnar, þ.e. þeir örfáu sem hafa haft geð í sér til að tala hér, meðal annars kom hv. þm. Árni Páll Árnason hvítþveginn í umræðuna og spurði í gær hvaða mistök voru gerð á þessu tveggja ára tímabili. Það voru mörg mistök gerð og ég krefst þess að yfirmaður efnahagsmála í landinu, hæstv. ráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, komi í þessa umræðu og geri grein fyrir sínu máli því hæstv. ráðherra getur ekki skotið sér undan ábyrgð á vettvangi þingsins því það er móðgun gagnvart okkur þingmönnum sem höfum krafist þess að hæstv. ráðherra geri svo lítið að koma í ræðustól Alþingis til að gera grein fyrir afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli. Hér er um að ræða stærstu skuldbindingu í sögu lýðveldisins og þeir aðilar sem meðal annars höfðu ekki eftirlit með því hvernig þessir Icesave-samningar tútnuðu út á þeim tíma sem þeir réðu í landinu koma ekki að umræðunni. Þar á ég við hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég sé að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki (Forseti hringir.) enn beðið um að fara á mælendaskrá í þessari umræðu. Ég mun þá óska eftir því undir liðnum um fundarstjórn forseta að forseti beini því til (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra að hún sinni sínum þinglegu skyldum hér og svari þeim spurningum sem við höfum beint til hæstv. ráðherra.

(Forseti (RR): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)