137. löggjafarþing — 34. fundur,  3. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þingmaður sagði en ég vil minna hann á að hæstv. utanríkisráðherra viðurkenndi að hafa verið í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum fyrir nokkru síðan þegar ég gekk á hann þannig að þetta er skjalfest á Alþingi. Samfylkingin var í ríkisstjórn og hæstv. fyrrverandi viðskiptaráðherra heitir Björgvin G. Sigurðsson og er samfylkingarmaður. En mér finnst vanta nokkuð hjá hv. þingmanni í ræðu hans. Hann gat um skuldbindingar ríkissjóðs o.s.frv. og þær skuldir sem búið er að taka við. Hann gat ekki um áhættuna sem fylgir þessum samningi sem við erum að ræða hér og þessu frumvarpi, áhættuna sem felst í því meðaltali sem menn ganga út frá, þ.e. að eignir séu 75% af skuldum. Það er meðaltal. Frávikin vantar. Það vantar staðalfrávikið sem menn þurfa að vita. Það vantar hversu miklar líkur eru á því að einungis 30% greiðist með eignum Landsbankans og það eru ákveðnar líkur á því líka nákvæmlega eins og það eru líka líkur á því að 100% greiðist. Þetta vantar algerlega inn í dæmið. Það vantar alla áhættugreiningu í þetta þannig að ríkisábyrgðin er með ákveðnum líkum ótrúlega mikil. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi velt þessu fyrir sér og hvort það væri ekki eðlilegt eins og ég stakk upp á í umræðum í gær í tvígang að sett yrði á þetta þak, að Alþingi sem veitir ríkisábyrgð mundi setja þak sem hlutfall af þjóðarframleiðslu sem geri það að verkum að það yrðu hagsmunir okkar viðsemjenda, Hollendinga og Breta, að þjóðarframleiðslan verði sem mest.